Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

14

Gunnar Gunnarsson nýr framkvæmdastjóri UÍA

05.03.2018

Stjórn Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) hefur gengið frá ráðningu Gunnars Gunnarssonar sem nýs framkvæmdastjóra sambandsins. Hann tekur við starfinu af Ester S. Sigurðardóttur sem er nýr rekstraraðili Löngubúðar á Djúpavogi.

Gunnar, oft þekktur sem „Gassi“, er fæddur árið 1960 og hefur lengst af ævi sinni búið og starfað á Akureyri. Hann var meðal annars framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KA í áratug og gegndi síðan sama starfi fyrir knattspyrnudeildir FH og Fylkis. Hjá KA stýrði hann meðal annars N1 mótinu sem er eitt fjölmennasta knattspyrnumót sem haldið er á Íslandi á ári hverju. Þá hefur Gunnar reynslu af utanumhaldi Evrópuleikja í knattspyrnu auk þess sem hann gefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Knattspyrnusamband Íslands. Gunnar fluttist austur í Egilsstaði fyrir ári en hann á ættir að rekja í Eiðaþinghá og á Fáskrúðsfjörð. Hann hefur að undanförnu starfað fyrir Valaskjálf. Gunnar kemur til starfa hjá UÍA um næstu mánaðarmót.

ÍSÍ þakkar Ester fyrir samstarfið og býður Gunnar velkominn til starfa.