Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.04.2025 - 26.04.2025

Ársþing ÍF 2025

Ársþing Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) verður...
27.04.2025 - 27.04.2025

Ársþing HHF 2025

Ársþing Héraðssambands Hrafna-Flóka (HHF)...
25

Vetrar-Paralympics settir með glæsibrag í Suður-Kóreu

12.03.2018

Opnunarhátíð Vetrar-Paralympics fór fram föstudaginn 9. mars sl. og var hátíðin sett með pompi og prakt í PyeongChang í Suður-Kóreu. Metfjöldi íþróttamanna tók þátt í opnunarhátíðinni, eða 567 íþróttamenn frá 48 löndum. Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson úr Víkingi var fánaberi Íslands við athöfnina en hann er jafnframt eini keppandi Íslands á leikunum. 

Hilmar er fjórði Íslendingurinn sem keppir á Vetrar-Paralympics og líka sá yngsti eða sautján ára gamall. Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) gerir ráð fyrir því að þessir Vetrar-Paralympics verði þeir stærstu og útbreiddustu í sögunni en metsala var á sýningarrétti mótsins og metskráning fjölmiðla við leikana. Þá hefur miðasala á fjölda viðburða einnig gengið afar vel svo næstu rúma vikuna ætti að vera margt um manninn og mikið við að vera í PyeongChang. 

Hilmar Snær keppir í svigi þann 14. mars næstkomandi og svo í stórsvigi þann 17. mars. Hilmar afgreiddi fánaburðinn að sjálfsögðu af stakri prýði við opnunarhátíðina og mun vafalítið láta vel fyrir sér finna í brekkunum á næstu dögum.

Meðfylgjandi myndir eru frá opnunarhátíðinni og fyrstu dögum hópsins í PyeongChang. 

Myndir með frétt