Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
2

Hilmar í 13. sæti í svigkeppninni

19.03.2018

Hilmar Snær Örvarsson keppti í svigi á Vetrar-Paralympics í PyeongChang sl. laugardag, 17. mars. Hilmar hafnaði í 13. sæti af þeim 23 keppendum sem náðu að ljúka keppni. Hilmar lauk því keppni í 20. sæti í stórsviginu og 13. sæti í svigkeppninni og ljóst er að hann er að bæta punktastöðu sína á heimslistanum umtalsvert.

Vetrar-Paralympics er lokið en þeim lauk í gær sunnudaginn 18. mars með veglegri lokaathöfn. Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra var gestur ÍF í Suður-Kóreu og fylgdist með Hilmari í svigkeppninni, en Ásmundur kom gagngert frá Bandaríkjunum þar sem hann hafði setið ráðstefnu hjá Sameinuðu þjóðunum. Þá var Helga Steinunn Guðmundsdóttir fyrrum varaforseti ÍSÍ og fulltrúi Samherjasjóðsins einnig á meðal gesta en þeim til halds og trausts ytra voru Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF og Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri afreks- og fjármálasviðs ÍF.

Bandaríkjamenn voru sigursælastir á verðlaunapalli þessa Vetrar-Paralympics með alls 36 verðlaun og unnu t.d. granna sína frá Kanada í framlengdum leik í íshokkýkeppninni. Hlutlausir íþróttamenn frá Rússlandi sem kepptu undir fána IPC unnu til 24 verðlauna og í 3. sæti var Kanada með 28 verðlaun. Efsta Norðurlandaþjóðin var Noregur með alls 8 verðlaun í 14. sæti en Norðmenn unnu ein gullverðlaun, þrenn silfur og fjögur brons.

Íslenski hópurinn er væntanlegur heim til Íslands í kvöld. Þetta var í fjórða sinn sem Ísland tekur þátt í leikunum og Hilmar yngsti keppandi Íslands frá upphafi og fyrstur til að keppa í standandi flokki í alpagreinum.

Fréttir frá Vetrar-Paralympics má lesa á vefsíðu Íþróttasambands fatlaðra ifsport.is. ÍF er einnig á Facebook undir Íþróttasamband fatlaðra.

Myndir með frétt