Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Ólafssalur vígður á Ásvöllum

15.04.2018

Þann 12. apríl síðastliðinn, á 87 ára afmæli Knattspyrnufélagsins Hauka í Hafnarfirði, var nýtt körfuknattleikshús á Ásvöllum vígt við formlega athöfn. Þetta er fyrsta húsið á Íslandi sem er byggt með einungis körfuknattleik í huga og hlaut nýji salurinn heitið „Ólafssalur” til minningar um Ólaf E. Rafnsson forseta ÍSÍ og forseta FIBA Europe, sem varð bráðkvaddur í júnímánuði 2013 aðeins fimmtugur að aldri. Ólafur heitinn var mikill Haukamaður og lék á sínum tíma með meistaraflokki félagsins í körfuknattleik. Salurinn er allur hinn glæsilegasti en hann mun taka um 1000 gesti í sæti og svalir í kringum völlinn munu  bera hátt í 700 manns. Það ætti því að nást upp góð stemning í húsinu þegar það verður komið í fulla notkun.

Vígsluathöfnin sjálf var hátíðleg. Fulltrúar S.Þ. verktaka afhentu Rósu Guðbjartsdóttur, formanni bæjarráðs, lykil að húsinu sem færði síðan lyklavöldin yfir til Samúels Guðmundssonar, formanns Hauka. Kjartan Jónsson, sóknarprestur í Ástjarnarkirkju, blessaði salinn og fulltrúar ÍSÍ og KKÍ afhentu samstæða skildi sem verður komið fyrir á vegg við hlið minningarskáps á 2. hæð í nýja salnum. Æskuvinir og félagar Ólafs í körfuknattleiknum í Haukum, „Bollarnir“, létu útbúa minningarskápinn en í honum er að finna myndir og muni tengdum Ólafi heitnum. Treyja Ólafs hefur einnig verið innrömmuð og er staðsett fyrir ofan minningarskápinn.

Viðburðinum stjórnaði Magnús Gunnarsson, framkvæmdastjóri Hauka og til máls tóku m.a. Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Sigríður Jónsdóttir varaforseti ÍSÍ, Hannes S. Jónsson formaður KKÍ, vinir Ólafs heitins og ekkja hans, Gerður Guðjónsdóttir, sem færði við þetta tækifæri félaginu eina milljón króna úr minningasjóði Ólafs.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri:  Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ, Sigríður Jónsdóttir varaforseti ÍSÍ, Samúel Guðmundsson formaður Knattspyrnufélagsins Hauka, Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Guðbjörg Norðfjörð varaformaður KKÍ.