Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍA 2024

Ársþing Íþróttabandalags Akraness (ÍA) verður...
18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍS 2024

Ársþing Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS)...
19

Lífshlaupið 2019 hefst í dag

06.02.2019

Lífshlaupið, heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, hefst í dag og er þetta í tólfta sinn sem verkefnið fer af stað. Markmiðið með verkefninu er að hvetja almenning til daglegrar hreyfingar þar sem farið er eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu. Hluti af því að bæta heilsu og vellíðan er að hreyfa sig reglulega. Setningarhátíðin fór fram í morgun í Breiðholtsskóla þar sem þær Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar öttu kappi í Lífshlaupshreystibraut ásamt því að flytja stutt ávörp. Myndir frá setningarhátíðinni má sjá hér á myndasíðu ÍSÍ.

Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka:

  • vinnustaðakeppni frá 6. – 26. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (þrjár vikur)
  • framhaldsskólakeppni frá 6. – 19. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (tvær vikur)
  • grunnskólakeppni frá 6. – 19. febrúar, fyrir 15 ára og yngri (tvær vikur)
  • einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið

Skráningar hafa gengið vel og nú þegar eru skráð yfir eitt þúsund lið til leiks. Auðvelt er að skrá sig til leiks og vera með og hægt er að skrá sig alveg fram á síðasta dag í vinnustaðakeppninni sem er 26. febrúar. Öll hreyfing telur með svo lengi sem það nær samtals 30 mínútum á dag hjá fullorðnum og 60 mínútum á dag hjá börnum og unglingum. 

Á meðan á Lífshlaupinu stendur eru allir hvattir til að deila myndum af þátttöku sinni í gegnum vefsíðu Lífshlaupsins og einnig á Facebook eða Instagram með myllumerkinu #lifshlaupid. Allir myndasmiðir fara í lukkupott í myndaleik Lífshlaupsins og eiga möguleika á að vera dregnir út og vinna flotta vinninga. Þá verða einnig flottustu myndirnar verðlaunaðar sérstaklega í lok keppninnar og því er um að gera að taka myndarlega á því við myndasmíðina.

Vefsíða Lífshlaupsins

ÍSÍ óskar ykkur góðs gengis og gleði í Lífshlaupinu 2019.

 

Myndir með frétt