Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

19

Hjón fengu heiðursviðurkenningar á þingi UÍA

08.04.2019

Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) hélt ársþing sitt á Stöðvarfirði laugardaginn 6. apríl sl. Alls sóttu 46 þingfulltrúar þingið að þessu sinni og var jákvætt andrúmsloft ríkjandi í þingstörfum öllum. ÍSÍ veitti þeim hjónum Birni Hafþóri Guðmundssyni og Hlíf Bryndísi Herbjörnsdóttur heiðursviðurkenningar á þinginu, Björn Hafþór fékk Gullmerki ÍSÍ og Hlíf Silfurmerki ÍSÍ. Þau hjónin hafa unnið mikið og fórnfúst starf í þágu íþrótta, bæði hjá UÍA og einnig aðildarfélögunum Súlunni á Stöðvarfirði og Neista á Djúpavogi. Björn Hafþór var því miður fjarverandi en Hlíf tók við heiðursviðurkenningunum fyrir hönd þeirra hjóna. Nokkrar tillögur lágu fyrir þinginu og voru þær allar samþykktar. Auk þess var skipulögð hópavinna þar sem fram fóru umræður um fimm mismunandi mál er snerta íþróttastarfið innan UÍA. Umræður voru líflegar og stjórn UÍA fékk niðurstöður þeirra til úrvinnslu á komandi misserum. Gunnar Gunnarsson hlaut kosningu til áframhaldandi formannssetu hjá UÍA með lófaklappi. Þingforseti var Sif Hauksdóttir og stýrði hún þinginu af röggsemi. Fulltrúi ÍSÍ á þinginu var Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri.

Á myndinni má sjá Viðar Sigurjónsson og Hlíf Bryndísi Herbjörnsdóttur við afhendingu viðurkenninganna.