Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

14

Ertu búin að skrá þig? Hjólað í vinnuna hefst á morgun

07.05.2019

Á morgun, miðvikudaginn 8. maí, hefst Hjólað í vinnuna í sautjánda sinn. Setningarhátíðin fer fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum þar sem allir eru velkomnir að hjóla við kl.8:30, þiggja bakkelsi, hlýða á nokkur hressileg hvatningarávörp og hjóla verkefnið formlega af stað. ÍSÍ hvetur fólk til að tala við samstarfsfélagana, mynda lið og skrá sig til leiks. Það eru skráningarleikir í gangi allan tímann, frá 8. - 28. maí, og ýmsir flottir vinningar í boði fyrir alla þá sem eru skráðir og með skráðar ferðir.

Á vefsíðu Hjólað í vinnuna, www.hjoladivinnuna.is, er að finna ýmsan skemmtilegan fróðleik sem kann að nýtast þátttakendum í verkefninu. Meðal annars er þar hægt að sjá „Göngu- og hjólastígakort“, en þar er að finna tengingu inn á borgarvefsjá og aðra góða vefi þar sem hægt er að finna góðar leiðir til að hjóla í og úr vinnu. Einnig er hægt að lesa sér til um umferðaröryggi hjólreiðafólks, öryggisbúnað og fleira. Hjólum til betri heilsu og spörum okkur peningana og kolefnissporin í leiðinni og hjólum í vinnuna.

Gagnlegir tenglar:

Hvernig skrái ég mig til leiks?

Reglur

Efni til að prenta út

 

Um hjólað í vinnuna
Hjólað í vinnuna hefur verið haldið árlega í maí allt frá árinu 2003 og stendur yfir í þrjár vikur í senn. Megin markmið verkefnisins er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu. Undanfarinn áratug hefur orðið gríðarleg vakning í þjóðfélaginu um hjólreiðar sem heilsusamlegan samgönguvalkost. Þegar Hjólað í vinnuna rúllaði af stað árið 2003 tóku 533 einstaklingar þátt en þátttakan óx ár frá ári og náði hámarki árið 2012 þegar 11.381 einstaklingur tóku þátt. Ætla má að margir þátttakendur hafi tekið hjólreiðar upp sem lífsstíl í framhaldi af þátttöku sinni í verkefninu. ÍSÍ er stolt af því að hafa stuðlað að bættri hjólamenningu á Íslandi og orðið til þess að vinnustaðir og sveitarfélög hafi bætt til muna aðstöðu fyrir hjólandi fólk. Hjólað í vinnuna er nú orðið hluti af menningu margra vinnustaða í landinu í maí ár hvert. 

Samstarfsaðilar Hjólað í vinnuna eru: Rás 2, Advania, Örninn og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn. 

Nánari upplýsingar má finna á www.hjoladivinnuna.is ásamt síðum á Facebook og Instagram.