Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

14

Dominiqua í framkvæmdastjórn ÍSÍ

20.05.2019

Á Íþróttaþingi ÍSÍ 3. – 4. maí síðastliðinn urðu þau tímamót að þingfulltrúar samþykktu að Íþróttamannanefnd ÍSÍ fengi fulltrúa í framkvæmdastjórn ÍSÍ.

Sá fulltrúi er kosinn af Íþróttamannanefnd ÍSÍ. Í nefndinni sitja: Ágústa Edda Björnsdóttir (handbolti og hjólreiðar), Dominiqua Alma Belányi (fimleikar), Jakob Jóhann Sveinsson (sund), Kári Steinn Karlsson (frjálsíþróttir) og Sigurður Már Atlason (dans). Nefndin kaus Dominiqua Ölmu Belányi sem einnig er formaður nefndarinnar til að taka sæti í framkvæmdastjórn ÍSÍ næstu tvö árin.

Hún hefur verið ein fremsta áhaldafimleikakona landsins um árabil og sagði nýlega skilið við keppnisfimleika. Hún er með meistaragráðu frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands í mannauðsstjórnun.

Hlutverk íþróttamannanefndar ÍSÍ er að vera málsvari íþróttamanna í samskiptum við ÍSÍ.
Helstu markmið nefndarinnar eru að:
• fjalla um málefni sem tengjast íþróttafólki og koma með tillögur til ÍSÍ
• gæta réttinda og hagsmuna íþróttafólks og koma með tillögur til ÍSÍ
• viðhalda sambandi við íþróttamannanefnd IOC, EOC og annarra landa
• taka til umræðu tillögur sem ÍSÍ sendir nefndinni til umsagnar og snúa að hagsmunum íþróttafólks á afreksstigi.

Hér er hægt að nálgast reglugerð um Íþróttamannanefnd ÍSÍ.
Ef íþróttafólk vill setja sig í samband við Íþróttamannanefnd ÍSÍ þá er hægt að senda tölvupóst á imn@isi.is 
Vefsíða Íþróttamannanefndar IOC.

Á myndinni með fréttinni má sjá Íþróttamannanefnd ÍSÍ. Dominiqua er í fremri röð fyrir miðju.