Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
27.07.2024 - 13.08.2024

Keppni í 100 m...

Anton Sveinn McKee keppir í 100 m bringusundi...
20

Minsk 2019- Allir íslensku strákarnir kepptu á Evrópuleikunum 2015

21.06.2019

Evrópuleikarnir fara nú fram í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Þetta er í annað sinn sem leikarnir eru haldnir, en fyrstu Evrópuleikarnir fóru fram fyrir fjórum árum í Azerbaidjan. Þá sendi Ísland 18 keppendur til þátttöku, en í þetta sinn keppa sjö Íslendingar á leikunum. Fimm af þessum sjö íslenskum keppendum, þ.e. allir strákarnir í hópnum, kepptu einnig á síðustu Evrópuleikum. Þeir eru Ásgeir Sigurgeirsson og Hákon Þór Svavarsson í skotfimi, Sveinbjörn Jun Iura í júdó, Kári Gunnarsson í badminton og Valgarð Reinhardsson í fimleikum. Rúmlega 4.000 kepp­endur taka þátt í leikunum nú, en um 6.000 síðast. Keppt er í 15 íþrótta­grein­um.

Dagskrá:

Í dag fór fram undankeppni í bogfimi. Þar keppti Eowyn Marie Alburo Mamalias og hafnaði hún í 16. sæti með skorið 632. Eowyn lendir síðan í útsláttarkeppni á móti þeim keppanda sem náði bestum árangari í dag, en það er Toja Ellison frá Slóveníu. Hefst útsláttarkeppni leikanna á morgun kl. 17:20 að staðartíma (eða kl. 14:20 á íslenskum tíma).

Sunnudaginn 23. júní fer fram keppni í skotfimi karla, þ.e. 10m loftbyssu og mun Ásgeir Sigurgeirsson keppa þar fyrir Íslands hönd. Hefst keppnin kl. 9:15 að staðartíma (6:15 á íslenskum tíma) og úrslit fara fram kl. 11:30 sama dag (8:30 á íslenskum tíma). Ásgeir keppti í annarri grein á síðustu Evrópuleikum og komst þá í úrslit þar sem hann lauk keppni í fimmta sæti.

Sama dag mun Sveinbjörn Jun Iura keppa í -81 kg. flokki í júdó. Hefst sú keppni kl. 12:06 að staðartíma (9:06 á íslenskum tíma) og stendur yfir fram eftir degi þar til úrslit ráðast. Ekki liggur fyrir hvaða mótherja Sveinbjörn fær á leikunum, en Sveinbjörn keppti einnig á síðustu leikum og tapaði þar fyrir þýskum andstæðingi í fyrstu umferð.

Mánudaginn 25. júní hefst keppni í badminton þar sem Kári Gunnarsson keppir í einliðaleik. Fyrirkomulagið á leikunum er þannig að keppt er í fjögurra manna riðlum og keppir Kári kl. 22:00 (19:00 á íslenskum tíma) á móti Christian Kirchmayr frá Sviss. Daginn eftir keppir hann á sama tíma á móti Brice Leverdez frá Frakklandi og miðvikudaginn 26. júní á hann leik á móti Luka Milic frá Serbíu, en hefst sá leikur kl. 19:00 (eða 16:00 á íslenskum tíma). Keppni hefst svo áfram með 16 manna úrslitum fimmtudaginn 27. júní, en tveir efstu úr hverjum riðli komast áfram í 16 manna úrslit og svo er keppt á hverjum degi fram að úrslitleik sem fer fram á lokadegi leikanna, sunnudaginn 30. júní.

Miðvikudaginn 26. júní fer fram keppni í haglabyssuskotfimi, þ.e. skeet, þar sem Hákon Þór Svavarsson verður á meðal keppenda líkt og á síðustu leikum. Keppni hefst kl. 09:00 að staðartíma (6:00 á íslenskum tíma) og stendur fram eftir degi. Daginn eftir, fimmtudaginn 27. júní, er seinnidagur keppninnar og hefst hún á sama tíma. Síðar þann dag, eða kl. 18:00 að staðartíma (15:00 á íslenskum tíma) fara fram úrslit í greininni.

Fimmtudaginn 27. júní hefst keppni í áhaldafimleikum og á Ísland þar tvo keppendur, þau Agnesi Suto-Tuuha og Valgarð Reinhardsson. Keppnin hefst kl. 13:00 að staðartíma (10:00 á íslenskum tíma) og stendur yfir fram eftir degi. Laugardaginn 29. júní fara fram úrslit í fjölþraut og sunnudaginn 30. júní fara fram úrslit á einstökum áhöldum. 

Myndir frá leikunum má sjá hér á myndasíðu ÍSÍ.

Vefsíðu Evrópuleikanna má sjá hér.

Evrópuleikarnir eru einnig á Facebook

#EuropeanGames
#Minsk2019
#BrightYearBrightYou
#InspiringSportInEurope