Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

13

Bogfimi í sókn

03.03.2020

Bogfimi hefur vaxið hratt á landsvísu undanfarin ár og er nú stunduð í tíu íþróttafélögum innan vébanda níu íþróttahéraða. Nýlega lauk Íslandsmóti ungmenna og öldunga í bogfimi og ljóst að áhuginn fyrir bogfimi er mikill því metskráning var í mótið. Þann 13. - 15. mars fer síðan Íslandsmeistaramótið innanhúss fram í Bogfimisetrinu.    

Bogfimiþjálfarinn Guðmundur Örn Guðjónsson hefur stundað bogfimi ásamt því að þjálfa bogfimi í 6 ár. Hann lauk nýverið 3. stigi í þjálfun, þ.e. hæsta þjálfarastigi, hjá Heimssambandinu í bogfimi. Námskeiðið var rúmlega viku langt og var haldið í Afreksmiðstöð heimssambandsins í Ólympíuborginni Lausanne í Sviss. Tólf manns sátu námskeiðið að þessu sinni en níu luku því að fullu. Á námskeiðinu var farið ítarlega í alla hluta þess að stjórna afreksstarfi; þjálfun og skipulag afreksfólks sem stefnir á Ólympíuleika, hæfileikamótun, heilbrigðisteymi, lyfjamál og fleira. Guðmundur náði hæstu einkunn af þeim sem sátu námskeiðið að þessu sinni. Til viðbótar lauk Guðmundur einnig stjórnendanámskeiði hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Ísland, sem haldið var í janúar sl. í Íþróttamiðstöðinni. Stjórnendanámskeiðið er vottað af Alþjóðaólympíunefndinni (IOC) og styrkt af Ólympíusamhjálpinni og fengu allir viðurkenningu frá IOC í lok námskeiðsins.

Þekkingin sem aflast hefur hjá Guðmundi og Bogfimisambandi Íslands (BFSÍ) mun nýtast í uppsetningu og keyrslu afreksstefnu BFSÍ og skipulagi afreksmála, hæfileikamótunar og landsliðsverkefna.
Einnig er á döfinni að BFSÍ setji upp sitt eigið þjálfaramenntunarkerfi. Áætlað er að hefja kennslu/réttindaveitingu þjálfara úr því á næstu tveimur árum.

Á myndinni með fréttinni eru Guðmundur og Kyeong Su Jeoung, yfirþjálfari Afreksmiðstöðvar heimssambandsins.

Nánari upplýsingar um bogfimi á Íslandi má nálgast á vefsíðunum www.bogfimi.is og www.archery.is