Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

19

Heiðranir á ársþingi KRAFT

03.03.2020

Tíunda ársþing Kraftlyftingasambands Íslands (KRA) var haldið í Reykjavík laugardaginn 29. febrúar sl. 

Á þinginu fór fram formanns- og stjórnarkjör. Formenn fastanefnda voru kosnir til tveggja ára. Gry Ek Gunnarsson var endurkjörin formaður til eins árs. Aron Ingi Gautason, Laufey Agnarsdóttir og Muggur Ólafsson taka nú sæti í stjórn með umboð til næstu tveggja ára. Sólveig H. Sigurðardóttir var kjörin formaður dómaranefndar, Einar Örn Guðnason formaður mótanefndar, Róbert Kjaran formaður landsliðsnefndar, Sigurjón Pétursson formaður laganefndar og Gry Ek formaður heiðursmerkjanefndar. Úr stjórn gengu Aron Friðrik Georgsson, Alex Orrason og Guðbrandur Sigurðsson.

Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands veitti á þinginu Maríu E. Guðsteinsdóttur gullmerki Kraftlyftingasambands Íslands, en hún á að baki um 20 ára sigursælan feril í kraftlyftingum.

Sigurjón Pétursson, fyrrverandi formaður Kraftlyftingasambands Íslands, var á þinginu kjörinn fyrsti heiðursformaður sambandsins. Við sama tækifæri var Sigurjón sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ, en það er æðsta heiðursmerki sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands veitir. Einnig var Gry Ek núverandi formaður sæmd Gullmerki ÍSÍ við þetta tækifæri. Ingi Þór Ágústsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ var fulltrúi ÍSÍ á þinginu, ávarpaði þingið og annaðist afhendingu heiðursviðurkenninga. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, var einnig viðstödd þingsetninguna.

Myndir með frétt