Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍA 2024

Ársþing Íþróttabandalags Akraness (ÍA) verður...
18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍS 2024

Ársþing Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS)...
18

Íþróttastarfið til umfjöllunar á blaðamannafundi Almannavarna

04.05.2020

Þann 2. maí sl. fór fram fundur Almannavarna í beinni útsendingu á RÚV. Aðalumræðuefni fundarins var íþróttastarf á Íslandi, áhrif Covid á starfið og viðbrögð íþróttafélaga í kjölfarið. Rætt var fjárhagstap íþróttafélaga og hvernig starfið komi til með að líta út á næstu vikum. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, var gestur á fundinum ásamt Eysteini Pétri Lárussyni, framkvæmdastjóra Breiðabliks og Pálmari Ragnarssyni, fyrirlesara og þjálfara hjá Val. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn stýrði fundinum. 

Á fundinum ræddi Líney Rut um aðgerðir stjórnvalda í tengslum við íþróttastarfið. ÍSÍ er falið að úthluta 450 milljóna króna framlagi ríkisins til íþróttahreyfingarinnar til þess að mæta áhrifum Covid-19, en samkvæmt Líneyju nemur tapið í íþróttahreyfingunni vegna Covid-19 um tveimur milljörðum króna.

Úthlutunin snýr bæði að almennum og sértækum aðgerðum. Almennar aðgerðir munu taka mið af reiknireglu og koma til framkvæmda strax. Sértækar aðgerðir felast í að fjármagni verði úthlutað vegna sérstakra viðburða, móta og keppnishalds sem ekki getur orðið af vegna ástandsins. Auglýst verður eftir umsóknum á vefsíðu ÍSÍ vegna þessa og geta sérsambönd, íþróttahéruð og íþróttafélög sótt um sértækar aðgerðir vegna beins fjárhagstaps af völdum Covid-19. ÍSÍ mun fylgjast náið með starfsemi íþróttafélaga og upplýsa ráðuneytið með reglubundnum hætti um áhrif þeirra aðgerða sem ráðist verður í.

Í síðustu aðgerð ríkisstjórnarinnar er lögð til 600 milljóna króna aukafjárveiting til sveitarfélaga vegna tímabundins stuðnings við fjölskyldur í erfiðri stöðu, svo tryggja megi jöfn tækifæri barna og ungmenna til íþrótta- og tómstundastarfs í sumar. Líney sagði það létta undir með mörgum heimilum og auðvelda börnum að stunda skipulagt íþróttastarf.

Ýmislegt annað var tekið fyrir á fundinum, m.a. æfingar fullorðinna og Íslandsmótin í fótbolta karla og kvenna. Stefnt er á að Íslandsmótin geti hafist í júní með ákveðnum takmörkunum á áhorfendum. Ákveðin áhætta fylgir því að hefja keppni á ný og því verður reynt að stilla fjölda fólks í kringum hvern leik í hóf.

Í dag kl.17:30 munu yfirvöld funda með sérsamböndum ÍSÍ um íþróttastarfið á tímum Covid-19.

Myndirnar sem fylgja fréttinni koma frá Lögreglunni.

Hér má sjá upptöku frá fundinum.

Myndir með frétt