Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
16

Taktu þátt í Ólympíudeginum ásamt afreksíþróttafólki um heim allan

19.06.2020

Þann 23. júní nk. er Alþjóðlegi Ólympíudagurinn haldinn hátíðlegur um allan heim. Hann er haldinn í tilefni af stofnun Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) 23. júní árið 1894. Þá má segja að Ólympíuleikar til forna hafi verið endurvaktir og færðir til nútímans. Markmiðið með deginum er að hvetja fólk til að koma saman, hreyfa sig og hafa gaman, en dagurinn er í raun ætlaður öllum óháð íþróttalegri getu. Meginþema í tengslum við daginn eru þrjú: Hreyfa, læra og uppgötva. Á deginum er kjörið að spreyta sig á ýmiss konar íþróttum og þrautum, en ekki einungis íþróttum sem keppt er í á Ólympíuleikunum. Ólympíudagurinn er einnig kjörinn vettvangur til að kynna gildi Ólympíuhreyfingarinnar sem eru; vinátta, virðing og ávallt að gera sitt besta.

ÍSÍ hvetur sérsambönd, íþróttafélög og frístunda- og tómstundanámskeið til þess að taka þátt í Ólympíudeginum, allt frá því að vera með einn dag sem Ólympíudag eða heila viku sem Ólympíuviku. Upplýsingar og fræðsluefni er að finna á vefsíðu ÍSÍ undir „Ólympíudagurinn“ og vefsíðu IOC hér.

Hvað get ég gert og mitt íþróttafélag?
Í tilefni dagsins mætti til dæmis kanna hvort einhver frambærilegur íþróttamaður félagsins hefði tök á að kíkja í heimsókn á leikjanámskeið í vikunni sem félagið stendur fyrir og ræða um t.d. gildi hreyfingar o.fl. Íslendingar eiga frábært íþróttafólk sem stefnir hátt og á Ólympíudeginum er gott tækifæri til að kynna afreksíþróttafólk og afreksíþróttir fyrir ungu fólki. Það má ekki gleyma því að ólympíudraumar og markmið byrja oft á unga aldri þegar kveikt er á innri eldmóði fyrir framtíðar möguleikum. Það er aldrei að vita nema framtíðar Ólympíufari leynist í þínu íþróttafélagi.

Ef það eru leikjanámskeið í gangi þá væri gaman að fá senda mynd af hópum sem eru að fást við verkefni sem tengjast hreyfingu á alvar@isi.is. Allt sem krökkum er boðið uppá á leikjanámskeiðum íþróttafélaga og frístundaheimila er liður í því sem Ólympíudagurinn stendur fyrir: Hreyfa, læra og uppgötva. ÍSÍ langar, í samvinnu við sambandsaðila sína, að birta myndir yfir þá íþróttaflóru sem krökkum stendur til boða í dag á Íslandi og sýna frá því. ÍSÍ mun síðan senda efni áfram til IOC. Vinsamlegast sendið eða birtið því aðeins myndir sem eru leyfðar til birtingar.

Taktu þátt í Ólympíudeginum!
Ef þitt félag vill taka þátt í Ólympíudeginum endilega merkið myndir/myndbönd á Instagram Story og myndir á Instagram @isiiceland. Þá getur ÍSÍ birt efnið á sínum miðlum. Einnig væri gaman að safna saman myndum undir myllumerkinu #Ólympíudagurinn.

Frekari upplýsingar veita: Þórarinn Alvar Þórarinsson, verkefnastjóri ÍSÍ (alvar@isi.is) og Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ (ragnhildur@isi.is).