Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍA 2024

Ársþing Íþróttabandalags Akraness (ÍA) verður...
18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍS 2024

Ársþing Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS)...
18

Ólympíudagurinn vakti lukku í dag

23.06.2020

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) fagnar Ólympíudeginum 2020 í dag ásamt alþjóðaólympíuhreyfingunni og íþrótta- og Ólympíusamböndum um heim allan.

Ólympíudagurinn á Íslandi hófst í Skallagrímsgarði í Borgarnesi í morgun. Föruneyti ÍSÍ keyrði til Borgarness eldsnemma ásamt Valdimari Gunnarssyni framkvæmdastjóra Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) en UMSK á kerru fulla af ýmsu dóti sem hægt er að nýta til íþróttaiðkunar og lánaði ÍSÍ í dag á Ólympíudeginum. Í Skallagrímsgarði hitti föruneytið fyrir Sigurð Guðmundsson framkvæmdastjóra Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB), en hann skipulagði daginn í Borgarnesi með ÍSÍ.

Á Ólympíudeginum er kjörið að spreyta sig á ýmiss konar íþróttum og þrautum, en ekki einungis íþróttum sem keppt er í á Ólympíuleikunum. Í Skallagrímsgarði voru settar upp sex stöðvar; skotfimi, ringó, blak, crossball, stangarfótbolti og æfing sirkusatriða. Um 90 unglingar Vinnuskólans mættu á svæðið, skipt var í hópa og fjörið hófst. Unglingarnir tóku þátt í að hreyfa sig og læra nýjar skemmtilegar íþróttir. Veðrið var alveg frábært, sólin skein og hlýtt var í fallegu umhverfi Skallagrímsgarðs. Mestu lukkuna vakti fimleikameistarinn Jón Sigurður Gunnarsson, en hann bauð unglingunum upp á að læra sirkusatriði eins og að djöggla með keilum og boltum, snúa diskum á spýtu o.fl. Í lokin var grillað og fóru því sáttir unglingarnir aftur í vinnuna eftir skemmtilegan morgun.

Næst mætti yngri kynslóðin í garðinn til þess að fagna Ólympíudeginum.  Krakkar í 1. – 4. bekk á leikjanámskeiði í Borgarnesi fengu góðar móttökur því Blossi, lukkudýr Smáþjóðaleikanna á Íslandi, mætti á staðinn. Blossi vekur alltaf jafn mikla lukku og á því var engin undantekning í dag. Krakkarnir fóru í alls kyns leiki eins og eltingaleiki, pokahlaup o.fl. og fengu að lokum að sjá glæsilegar sirkuslistir sem Jón Sigurður sýndi.

Allur dagurinn var tekinn upp og sýndur á Instagram síðu ÍSÍ í Story. Instagramsíðu ÍSÍ má sjá hér.

Ólympíudagurinn var haldinn hátíðlegur um allan heim og margt íþróttafólkið sem deildi myndum og myndböndum af sínum æfingum. Íslenskt afreksíþróttafólk lét ekki sitt eftir liggja og tók íslenskt afreksíþróttafólk þátt í Ólympíudeginum með sínum hætti. ÍSÍ birti síðan myndir og myndbönd frá íþróttafólkinu á Instagram síðu ÍSÍ í Story. Allar færslur eru merktar #OlympicDay og #StayStrong en það er herferð á vegum Alþjóðaólympíunefndarinnar.

Í lok dags stóð Afreks- og Ólympíusvið ÍSÍ fyrir fræðslufundi fyrir íþróttafólk sem er á einstaklingsstyrkjum frá Afrekssjóði ÍSÍ. Á fræðslufundinum sagði Nalin Chaturvedi starfsmaður Alþjóðaólympíunefndarinnar frá Athlete365 og því helsta sem þar er boðið upp á fyrir afreksíþróttafólk. Fundurinn fór fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Í lok dagskrá var boðið upp á léttar veitingar og íþróttafólkið fékk tækifæri til að hittast og kynnast betur.

Myndirnar með fréttinni sýna brot úr deginum, en fleiri myndir má sjá á myndasíðu ÍSÍ hér.

Myndir með frétt