Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Skipulagt íþróttastarf verndandi þáttur

30.06.2020

Í skýrslu Ánægjuvogarinnar um íþróttir unglinga kemur skýrt fram að neysla allra vímuefna er mun ólíklegri á meðal unglinga í 8. - 10. bekk sem æfa íþróttir með íþróttafélagi en þeirra sem æfa ekki. Skýrslan var unnin fyrir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) af Rannsóknum og greiningu. Margrét Lilja Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu og í íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík vonast til þess að niðurstöður skýrslunnar verði notaðar til að gera gott íþróttastarf enn betra. Margrét Lilja segir mikilvægt að íþróttahreyfingin nýti sér þessar góðu niðurstöður, hvort sem um er að ræða íþróttahéruðin eða einstaka íþróttafélög, bæði til að sýna iðkendum og foreldrum þeirra fram á hversu gott starf er unnið innan félaganna en einnig til að rýna og kanna hvað má betur fara, til þess að gera gott starf enn betra.

„Við sjáum mjög skýrst í gögnunum okkar hjá Rannsóknum og greiningu að skipulagt íþrótta- og tómstundastarf er einn af verndandi þáttum í íslenska forvarnarmódelinu sem unnið hefur verið eftir á Íslandi síðastliðin rúm 20 ár og skilað þeim árangri að draga úr vímuefnaneyslu unglinga í efstu bekkjum grunnskóla. Þannig eru minni líkur á vímuefnaneyslu, betri andleg og líkamleg líðan, betri námsárangur og lengi mætti telja meðal barna og ungmenna sem eru virk í skipulögðu starfi“, segir Margrét Lilja. 

Íþróttir eru stór hluti af íslenskri æsku en um 90% barna fer í gegnum íþróttastarf með íþróttafélagi á einhverjum tímapunkti. „Það er mikilvægt að íþróttafélögin séu stöðugt að skoða hvað þau geti gert til að halda iðkendum lengur í íþróttinni, koma í veg fyrir eða draga úr brottfalli sem byrjar á unglingárum. Hlutverk íþróttafélaga hér á Íslandi er í raun tvíþætt, annars vegar áhersla á afrek og keppni og hins vegar uppeldisgildi starfsins. Íþróttafélögin eru þannig mjög mikilvægar stofnanir í samfélaginu og það verður að líta á barna- og unglingastarfið út frá því“, segir Margrét Lilja.

Margrét segir að ýmislegt í skýrslunni sé jákvætt og það sé gleðiefni að börnum líður almennt mjög vel í sínu skipulagða íþróttastarfi. Þau eru ánægð  með félagið sitt, þjálfara og íþróttaaðstöðu svo fátt eitt sé nefnt. Að sama skapi er mikið gildi fólgið í því að sjá sterkt forvarnarhlutverk skipulagðra íþrótta, hvort sem um er að ræða minni líkur á vímuefnaneyslu meðal þeirra ungmenna sem eru virk í skipulögðu íþróttastarfi eða almennt betri heilsu, líkamlega jafnt sem andlega.

 

Um Ánægjuvogina
Ánægjuvogin 2020 er unnin af Rannsóknum og greiningu (R&g) fyrir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ). Rannsóknir og greining hafa lagt spurningalista fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk frá árinu 1992 í rannsókninni Ungt fólk. Í Ánægjuvoginni felst að spurningar tengdar íþróttum og íþróttaiðkun er bætt við spurningalistana. Listarnir voru lagðir fyrir nemendur bekkjanna í febrúar á þessu ári og var svarhlutfallið 85%.

Tenglar sem tengjast Ánægjuvoginni 2020 eru hér fyrir neðan: