Fjöldatakmörk á samkomum óbreytt til 26. júlí
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, að tillögu sóttvarnalæknis, að framlengja auglýsingu um takmörkun á samkomum óbreytta um þrjár vikur, þ.e. til 26. júlí. Fjöldatakmörk á samkomum miðast því áfram við 500 manns.
Minnisblað sóttvarnalæknis frá 29. júní 2020.
Þá hefur heilbrigðisráðherra einnig samþykkt tillögu sóttvarnalæknis um breyttar reglur vegna skimunar á landamærum.
Íslendingar og aðrir sem búsettir eru hér á landi og taldir eru hafa hér útbreitt tengslanet verður,við komuna hingað til lands, áfram gert að fara í 14 daga sóttkví eða skimun á landamærum. Ofangreindum einstaklingum verði gert að fara í sóttkví eftir sýnatöku. Þessum einstaklingum verði boðin sýnataka 4-5 dögum eftir upphaf sóttkvíar og ef niðurstaða rannsóknar sýnir ekki merki um veirun þá verði sóttkví hætt. Jákvætt sýni þýðir hins vegar 14 daga einangrun.
Önnur sýnatakan verði skipulögð af sóttvarnalækni í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu, heilsugæsluna, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis. Önnur sýnataka verði einstaklingum gjaldfrjáls.
Stefnt er að því að þessi framkvæmd geti hafist ekki síðar en 13. júlí n.k.
Minnisblað sóttvarnalæknis frá 2. júlí 2020 varðandi skimanir á landamærum og sóttkví ferðamanna.