Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
27.07.2024 - 13.08.2024

Keppni í 100 m...

Anton Sveinn McKee keppir í 100 m bringusundi...
21

Ólympíuhópur birtur - 9 mánuðir til leika

23.10.2020

Í dag eru 9 mánuðir þangað til setningarhátíð Ólympíuleikanna í Tókýó fer fram þann 23. júlí 2021. Leikarnir standa yfir í rúmar tvær vikur og lýkur með lokahátíð þann 8. ágúst.

Leikarnir áttu að hefjast þann 24. júlí 2020, en þeim var frestað um eitt ár vegna ástandsins í heiminum sökum Covid-19. Alþjóðaólympíunefndin (IOC) og skipuleggjendur leikanna í Tókýó stefna að því að Ólympíuleikarnir fari fram og að áhersla sé lögð á samvinnu til þess að klára verkefnið á sem farsælastan hátt. Keppnisaðstæður munu vera eins og lagt var upp með, þeir 43 leikvangar sem notaðir verða til keppni eru þeir sömu og búið var að ákveða og dagskráin er sú sama. 

 

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hefur unnið með sérsamböndum ÍSÍ að því að skilgreina Ólympíuhóp keppenda vegna leikanna í Tókýó á næsta ári.

Um er að ræða þá aðila sem eru að stefna að þátttöku og vinna markvisst að því að tryggja sér keppnisrétt á leikana sem og þá aðila sem sérsambönd ÍSÍ telji að eigi möguleika á þátttöku m.a. með því að vinna sér þátttökurétt í gegnum úrtökumót. Aðeins einn keppandi hefur náð lágmörkum og tryggt sér þannig keppnisrétt, en það er Anton Sveinn McKee sundmaður.

Reglur íþróttagreina eru misjafnar hvað varðar möguleika íþróttafólks á að vinna sér þátttökurétt. Í ákveðnum greinum er miðað við lágmörk sem þarf að ná, meðan í öðrum þarf að keppa á fjölmörgum alþjóðlegum mótum og vinna sér inn stig á heimslista. Lokalisti í þeim greinum á vormánuðum 2021 segir svo til um hvaða keppendur vinna sér þátttökurétt á leikana.

Áhrif COVID-19 faraldursins á mótaþátttöku íþróttafólksins eru mikil og í nokkrum íþróttagreinum hefur verið lítið um alþjóðleg mót síðan snemma á þessu ári. Þá hafa nokkrir einstaklingar verið að glíma við meiðsli og ekki náð að keppa í einhvern tíma, en eru á réttri leið og stefna áfram á góðan árangur á komandi misserum. Í vali sérsambanda hefur því í sumum tilfellum verið horft til árangurs frá síðasta ári eða að framfarir íþróttafólksins gefi væntingar um áframhaldandi bætingar og þar með möguleika á að vinna sér inn þátttökurétt á leikana. Þá eru einstaklingar fyrir utan þennan hóp sem stefna á leikana en vegna óvissu í tengslum við meiðsli eða mótafyrirkomulag var ákveðið að hafa þá fyrir utan hópinn.

Í nokkrum íþróttagreinum, s.s. þar sem lágmörk gilda gagnvart keppnisrétti, er ljóst að fleiri aðilar gætu gert tilkall til að vera á þessum lista.

Í frjálsíþróttum er horft til þess að á listanum séu þeir íþróttamenn sem hafa náð lágmarki á stórmót fullorðinna undanfarin tvö ár og/eða náð afgerandi árangri á stórmótum U23 ára og eru nálægt lágmarki eða kvótaárangri á leikana í Tókýó. Einnig eru þar þeir íþróttamenn sem hafa skarað framúr í sumar og eru í efsta flokki skv. skilgreiningu afreksstefnu Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ).

Í fimleikum er tölvuverð óvissa eins og hjá mörgum öðrum íþróttagreinum. Fyrirhugað var að Evrópumót á þessu ári yrði úrtökumót fyrir Ólympíuleika, en svo verður ekki heldur er sennilegt að Evrópumót í apríl 2021 verði jafnframt úrtökumót fyrir leikana í Tókýó. Fá alþjóðleg mót hafa verið haldin á þessu ári og því er vandasamt fyrir sérsambandið að velja íþróttafólk á listann.

Í sundi er miðað við þá sem eru 2% eða minna frá boðslágmarki á næstu Ólympíuleika. Tímabilið sem um ræðir er frá HM50 2019 til dagsins í dag, en Sundsamband Íslands (SSÍ) mun óska eftir því að fá að bæta inn í hópinn eftir RIG 2021 og ÍM50 2021, ef fleira sundfólk nær þessum viðmiðum.

Í skotíþróttum eru það helst kvótamót sem gefa beinan þátttökurétt á leikana en auk þeirra er horft til þess hversu margir aðilar frá viðkomandi landi hafa náð Ólympíuviðmiðum (MQS). Fleiri skotmenn en þeir sem eru á þessum lista hafa náð þessum MQS árangri (Ólympíuviðmið) og gætu þeim jafnvel fjölgað enn frekar ef alþjóðlegt mótahald kemst í gang á næstunni.

Í mörgum öðrum greinum eru það helst einn til tveir íþróttamenn sem eru að taka þátt í mótum alþjóðlegra sambanda og reyna að vinna sér inn stig á heimslista. Þessi listi mun því eflaust taka breytingum út frá árangri íþróttafólksins og þeim möguleikum sem eru fyrir hendi til að tryggja sér þátttökurétt.

Vefsíða leikanna

Á vefsíðu leikanna hér má sjá síðu tileinkaða erlendum gestum. Áhugasamir geta séð ýmsar hagnýtar upplýsingar um Tókýó, ferðatilhögun, miðamál og fleira.

Sjá má íþróttagreinarnar sem keppt verður í hér og dagskrá leikanna má sjá hér