Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Viðræður um næstu skref vegna byggingar þjóðarleikvangs í knattspyrnu

10.11.2020

Rétt í þessu var birt fréttatilkynning á vef stjórnarráðsins, þess efnis að ríkisstjórnin hafi samþykkt að hefja viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref vegna byggingar þjóðarleikvangs í knattspyrnu, að tillögu mennta- og menningarmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Munu viðræðurnar byggja á valkostagreiningu breska ráðgjafafyrirtækisins AFL, sem varð hlutskarpast í útboði sem efnt var til á evrópska efnahagssvæðinu snemma árs. Valkostagreiningin var unnin að undirlagi Þjóðarleikvangs ehf., félags sem KSÍ, Reykjavíkurborg og ríkið stofnuðu til að halda utan um verkefnið.

Upplýsingar um þá valkosti sem fram koma í valkostagreiningunni er að finna í fréttatilkynningu stjórnarráðsins.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ:

„Það er fagnaðarefni að ríkisstjórnin stígi þetta skref enda orðið brýnt að þoka þessum málaflokki fram á við. Okkar fjölmennustu íþróttagreinar hafa búið við langvarandi aðstöðuleysi fyrir landslið sín og við fögnum hverju skrefi sem færir okkur nær úrlausnum fyrir okkar frábæra íþróttafólk.“