Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Verum hraust - Hlaðvarp ÍSÍ - Ólafía Þórunn

04.01.2021

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur og brautryðjandi í íslensku kvennagolfi, er sjöundi gestur Verum hraust - Hlaðvarps ÍSÍ.

Ólafía er fyrsti kylfingurinn frá Íslandi til að ná inn á sterkustu mótaröð heims, Atvinnumótaröð kvenna (LPGA), en það gerði hún í lok árs 2016 með því að fara í gegnum öll þrjú stig úrtökumótsins og enda í 2. sæti á lokaúrtökumótinu, en 20 efstu tryggðu sér keppnisrétt á LPGA. Hún spilaði á mótaröðinni árin 2017, 2018 og 2019.

Ólafía spilaði í bandaríska háskólagolfinu með kvennagolfliði Wake Forest á árunum 2010-2014. Ólafía varð Íslandsmeistari í holukeppni 2011 og 2013 og Íslandsmeistari höggleik 2011, 2014 og 2016. Á Íslandsmótinu í golfi 2016 skrifaði hún nýjan kafla í golfsöguna með því að vera á besta samanlagða skorinu af öllum keppendum Íslandsmótsins, á -11 samtals.

Á árinu 2017 náði Ólafía frábærum árangri á sínu fyrsta tímabili á mótaröð LPGA. Hún endaði í 74. sæti á stigalistanum og með árangri sínum var hún í forgangi á öll mótin á LPGA mótaröðinni á næsta tímabili. Þar að auki var hún valin í úrvalslið LET-Evrópumótaraðarinnar á Drottningarmótinu í Japan. Hún er jafnframt fyrsti íslenski kylfingurinn sem er valinn í slíkt úrvalslið atvinnukylfinga. Alls lék Ólafía á 26 mótum á LPGA. Besti árangur hennar á tímabilinu var 4. sæti á Indy Women in Tech Championship. Ólafía náði 10. besta árangri tímabilsins af nýliðum á LPGA mótaröðinni. Árangur Ólafíu á heimslista atvinnukylfinga er sá besti í sögunni hjá íslenskum kylfingi. Hún náði að komast í sæti nr. 179 og fór upp um 420 sæti á árinu 2017. Árið 2017 var Ólafía valin Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna (SÍ).

Í viðtalinu, sem tekið er af Rögnu Ingólfsdóttur, talar Ólafía Þórunn um sinn íþróttaferil, allt frá sínum fyrstu skrefum í golfíþróttinni til þess að vera orðin atvinnukona í golfi.

Viðtalið má sjá hér á Youtube-síðu ÍSÍ.

Verum hraust – Hlaðvarp ÍSÍ er aðgengilegt á öllum helstu veitum, Spotify og Apple iTunes. Einnig má hlusta á viðtalið hér fyrir neðan.