Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Hluta af 75. Íþróttaþingi frestað til haustsins

07.05.2021

75. Íþróttaþing ÍSÍ var sett kl. 16:00 í dag, 7. maí. Þingið var haldið í formi fjarþings, með útsendingu frá Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.

Fjöldi þingfulltrúa á kjörbréfum voru samtals 217. Frá 31 sérsambandi af 33 voru skráðir 105 fulltrúar og frá 24 af 25 íþróttahéruðum voru skráðir 110, auk tveggja fulltrúa frá Íþróttamannanefnd ÍSÍ.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, setti þingið kl. 16:00, minntist látinna félaga og ávarpaði þingfulltrúa. Lárus kom víða við í sínu ávarpi og voru málefni tengd kórónuveirufaraldrinum augljóslega nokkuð fyrirferðarmikil og þær áskoranir sem hafa fylgt faraldrinum. Lárus ræddi þá miklu samstöðu sem íþróttahreyfingin hefur sýnt frá því að faraldurinn hófst, öll góðu samskiptin sem hreyfingin hefur átt á erfiðum tímum og frábæra frammiðstöðu allra sem koma að íþróttastarfinu í landinu. Sagðist hann fullviss um að íþróttahreyfingin kæmi sterk út úr þessum flóknu og erfiðu aðstæðum. Hann þakkaði frábæran stuðning stjórnvalda á tímum COVID-19 og öll þau úrræði sem stjórnvöld hafa lagt hreyfingunni til á fordæmalausum tímum. Hann sagði framtíðina bjarta og kjöraðstæður væru nú til kröftugrar viðspyrnu.

Guðrún Inga Sívertsen var kjörin 1. þingforseti og Viðar Helgason 2. þingforseti. Þingritarar voru kjörin þau Brynja Guðjónsdóttir og Viðar Sigurjónsson. 
Flutt voru rafræn ávörp frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, og Hauki Valtýssyni formanni UMFÍ.

Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ flutti skýrslu stjórnar og Gunnar Bragason gjaldkeri ÍSÍ kynnti reikninga. Reikningar sambandsins voru samþykktir með öllum atkvæðum gegn einu.

Þinginu var ekki slitið heldur var því frestað til 9. október nk. Vonast er til þess að þá verði mögulegt að halda þingi áfram með hefðbundnu sniði. Þingnefndir munu starfa föstudaginn 8. október nk.

Fyrir þinginu lágu níu tillögur. Samþykkt var áframhaldandi heimild til stofnunar sérsambands um klifuríþróttina. Fjárhagsnefnd þingsins fjallaði um tvær tillögur. Tillaga um úthlutun auka arðgreiðslu frá Íslenskri getspá tók breytingum á þinginu og örlitlar breytingar urðu á tillögu að fjárhagsáætlun ÍSÍ vegna breytinga á fyrrnefndri tillögu.Öðrum tillögum var frestað til hausts.

Jón Ásgeir Eyjólfsson formaður kjörnefndar kynnti framboð til forseta og framkvæmdastjórnar. Kosið var til forseta ÍSÍ og sjö meðstjórnenda til fjögurra ára.

Niðurstöður kosninga í stjórn ÍSÍ koma fram í sér frétt hér á heimasíðunni.

Við frestun þingsins þakkaði forseti ÍSÍ þingfulltrúum fyrir þingsetuna og afhenti þingforsetum blómvönd í þakklætisskyni fyrir góða þingstjórn.