Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Samningur við Abler um gerð starfsskýrslukerfis ÍSÍ og UMFÍ

03.09.2021

Í dag undirrituðu Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ)  samning við fyrirtækið Abler (sem rekur Sportabler hugbúnaðinn) um gerð á nýju rafrænukerfi fyrir íþróttahreyfinguna sem ætlað er fyrir lögbundin skil á starfsskýrslum íþróttahreyfingarinnar.

Kerfið mun leysa af hólmi starfsskýrsluskil í Felix, félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ, sem hefur verið í notað til verkefnisins frá árinu 2004. Með tilkomu nýs kerfis munu skil hjá íþróttahreyfingunni fara fram í gegnum Sportabler, sama kerfi og  meirihluti íþróttafélaga notar í sínu daglega starfi. Horft er til þess að með nýju kerfi verði skil félaganna skilvirkari og einfaldari en áður.

Afar mikilvægt er fyrir íþróttahreyfinguna að hafa nákvæma yfirsýn yfir umfang og gerð hreyfingarinnar til að geta meðal annars uppfyllt upplýsingaskyldu til stjórnvalda og sem grunnskilyrði til útreikninga meðal annars í tengslum við dreifingu fjármagns. ÍSÍ og UMFÍ vænta mikils af samstarfinu við Abler ehf. og telja undirritun samningsins mikilvægt skref í átt að hagkvæmari og skilvirkari skýrsluskilum í hreyfingunni. Stefnt er að því að íþróttahreyfingin geti skilað starfsskýrslum fyrir starfsárið 2021 í nýju kerfi strax á næsta ári.

„Við væntum mikils af samstarfinu við Abler og nýju skilakerfi fyrir íþróttahreyfinguna. Upplýsingar úr starfsskýrslum eru gríðarlega dýrmætar og mikilvæg undirstaða fyrir allt okkar starf. Það er því stórt hagsmunamál að skil á starfsskýrslum gangi hratt og vel fyrir sig. Við treystum Abler til að skila okkur góðu og skilvirku kerfi sem bæta mun skil og einfalda árleg og lögbundin starfsskýrsluskil fyrir íþróttahreyfinguna." - Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ.

„Við erum spennt fyrir samstarfinu sem við höfum trú á að færi íþróttahreyfingunni upplýsingar sem hægt verður að nýta til þess að efla starfið enn meira og aðstoða við áherslur og ákvarðanatöku. Tæknin og tækifærin sem fylgja henni eru samfélaginu til góða.“  -Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ.

„Við hjá Abler erum bæði ánægð og stolt yfir því að fá að taka þátt í þessu þýðingarmikla verkefni. Íþróttastarfið er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið, og við trúum því að við stöndum frammi fyrir einstökum tækifærum með því að stuðla að skilvirkari ferlum, gagnadrifinni framþróun og samnýtingu á þeirri þekkingu sem til staðar er í hreyfingunni. Við þökkum fyrir það traust sem okkur er sýnt og gerir okkur frekari þátttakendur í starfi ÍSÍ og UMFÍ við að skapa umhverfi sem styður sem best við það verðmæta starf sem unnið er í hreyfingunni á hverjum degi.”  -Markús Máni M. Maute framkvæmdastjóri Abler.

Myndir með frétt