Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

19

Ólympíuhlaup ÍSÍ

28.09.2021

Ólympíuhlaup ÍSÍ er haldið árlega í grunnskólum landsins. Með Ólympíuhlaupi ÍSÍ er leitast við að hvetja nemendur grunnskóla á Íslandi til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Nemendur geta valið á milli þriggja vegalengda í hlaupinu, þ.e. 2,5 km, 5 km eða 10 km. Að hlaupinu loknu fær hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri, hversu margir tóku þátt og hversu langt var hlaupið.

Hér eru myndir frá setningu hlaupsins í Grunnskóla Reyðarfjarðar fyrr í haust. 

Myndir frá deginum má sjá hér á myndasíðu ÍSÍ.

Hlaupið er styrkt af verkefninu Íþróttavika Evrópu og verða þrír þátttökuskólar, sem ljúka hlaupinu fyrir 10. október og skila inn upplýsingum til ÍSÍ, dregnir út úr potti. Hver þessara þriggja skóla fær 100.000 króna inneign í Altis, en Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu. Þeir skólar sem ljúka hlaupinu eftir 10. október geta eftir sem áður skilað inn upplýsingum og fengið send viðurkenningaskjöl, en gert er ráð fyrir að allir skólar hafi lokið hlaupinu fyrir árslok 2021.

ÍSÍ vonast eftir góðri þátttöku skólanna nú sem endranær, en nú þegar hefur fjöldi skóla skilað inn þátttökutölum og eru komnir í pottinn. Skráning fer fram hér á vefsíðu ÍSÍ.