Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Ráðherra í heimsókn

28.02.2022

 

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra heimsótti höfuðstöðvar ÍSÍ og sérsambanda í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal síðasta föstudag. Hann heilsaði upp á starfsmenn ýmissa sambandsaðila ÍSÍ í miðstöðinni og að því loknu fundaði ráðherra og hans föruneyti með forseta ÍSÍ, 2. varaforseta, gjaldkera og framkvæmdastjóra ÍSÍ á skrifstofu ÍSÍ. Með ráðherra voru Örvar Ólafsson og Valgerður Þórunn Bjarnadóttir sérfræðingar úr ráðuneytinu.

Rædd voru ýmis hagsmunamál hreyfingarinnar, áskoranir og tækifæri. Nýverið voru mikil tímamót í samfélaginu við afléttingu allra takmarkana vegna kórónuveirufaraldursins og fagnar íþróttahreyfingin þeim áfanga innilega, líkt og allir landsmenn, þar sem það mun einfalda alla hluti í íþróttastarfinu og bæta rekstrarskilyrði.

Samstarf ÍSÍ við ráðuneytið hefur verið afar farsælt alla tíð og hefur aukist á síðari árum enda mikilvægt að á milli aðila ríki gagnkvæmur skilningur og þekking. Á fundinum kom fram að ráðherra hyggst auka enn frekar samskipti við hreyfinguna og koma á reglubundnum fundum til að tryggja aukið upplýsingaflæði og forgangsröðun verkefna.