Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

EYWOF - Loka keppnisdagur íslenska hópsins

25.03.2022

Það var nóg um að vera hjá íslenska hópnum á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Vuokatti í Finnlandi á síðasta keppnisdegi hópsins þar sem allir íslensku keppendurnir tóku þátt.

Um morguninn var keppt í sprettgöngu karla. Íslensku strákarnir gáfu allt í sprettinn og komu þreyttir í mark enda búnir að keppa þrjár keppnir á síðustu fjórum dögum. Einar Árni Gíslason náði besta árangri Íslendinganna en hann kom í mark á tímanum 2:36:44 sem skilaði honum 71. sæti. Sveinbjörn Orri Heimisson endaði í 72. sæti á tímanum 2:36:52, Ævar Freyr Valbjörnsson kom þar rétt á eftir í 73. sæti á tímanum 2:36:55 og Ólafur Pétur Eyþórsson hafnaði í 74. sæti á tímanum 2:46:03.

Keppni í brettastíl fór einnig fram í gær þar sem fimm Íslendingar tóku þátt. Aðstæður í fjallinu voru til fyrirmyndar og brautin virkilega flott. Aðalheiður Dís Stefánsdóttir hlaut 26.25 stig fyrir ferðina sína sem skilaði henni 12. sæti. Í karla flokki er keppt í tveimur í riðlum. Þeir Einar Ágúst Ásmundsson og Stefán Jón Ólafsson kepptu í fyrri riðlinum og Arnór Dagur Þóroddsson og Bjartur Snær Jónsson í seinni riðlinum. Arnór Dagur hlaut 46.5 sem skilaði honum 12. sætinu í sínum riðli, Einar Ágúst hafnaði í 13. sæti í sínum riðli með 42.75 stig, Bjartur Snær Jónsson fékk 22.25 stig og hafnaði í 22. sæti og Stefán Jón í 19. sæti með 10.75 stig. Hópurinn var heilt yfir ánægðir með keppnisdaginn og hafa nýtt hverja einustu stund í fjallinu þessa vikuna.

Deginum lauk svo í skautahöllinni í Vuokatti þar sem Júlía Rós keppti í frjálsum æfingum á listskautum. Líkt og á miðvikudaginn, gekk vel hjá Júlíu og náði hún annan daginn í röð að bæta persónulegt stigamet sitt á alþjóðlegu móti. Fyrir frjálsu æfingarnar fékk Júlía 74.69 stig. Samanlögð stig hennar úr stutta prógramminu frá því í gær og frjálsu æfingunum í dag eru 115.22 stig sem skiluðu henni í 20. sæti af 31 keppendum.

Allir íslensku keppendurnir hafa lokið keppni á mótinu og staðið sig mjög vel. Þau eru öll sammála um að þátttaka í mótinu hafi veið mikil upplifun og hvatning til að gera betur. Mikil samstaða og gleði einkenndi hópinn alla ferðina.  

 

Myndir með frétt