Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
11

Vilja taka upp íslenska forvarnarmódelið í Mexíkó

16.06.2022

Sendinefnd frá Guanajuato-fylki í Mexíkó er stödd hér á landi um þessar mundir til að kynna sér íslenska forvarnarmódelið og fyrirkomulag íþróttastarfsins undir leiðsögn forsvarsfólks fyrirtækisins Rannsókna og greininga. Í hópnum eru m.a. fylkisstjórinn og heilbrigðisráðherra fylkisins. Áhersla hópsins er á þátttöku í íþróttastarfi á breiðum grundvelli, fjármögnun íþróttahreyfingarinnar, framkvæmdir á borð við byggingu íþróttamannvirkja, hverjir fá að æfa íþróttir og hvaða greinar eru í boði.

Ragnhildur Skúladóttir sviðstjóri Þróunar-og fræðslusviðs ÍSÍ fundaði með hópnum ásamt Auði Ingu Þorsteinsdóttur framkvæmdastjóra UMFÍ, í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.

Ragnhildur segir að mikill munur sé á stöðu íþróttamála í Mexíkó og hér á landi og almenn þátttaka barna og ungmenna sé mun minni en það sem við þekkjum hér og meiri áhersla sé á árangur fárra einstaklinga á kostnað fjöldans. Þá hafi frístundakortið vakið mikla athygli.

Eftir fundinn fór hópurinn til Ármanns og Þróttar og skoðuðu mannvirkin. Það vakti athygli þeirra að mannvirkin iðuðu af lífi, en þar voru börn á fjölbreyttum sumarnámskeiðum í sirkus, fimleikum, parkúr og knattspyrnu.  

Hópurinn nýtir vikuna til að kynnast því starfi og áherslum sem íslenska forvarnarmódelið byggir á. Þau hafa fundað m.a. með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra og Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

Ráðstefna um íslenska forvarnarmódelið, undir merkjum Planet Youth var haldin í Mexíkó í lok síðasta árs og er stefnt að því að halda hana árlega. Að auki hafa þau tekið upp Forvarnardag að íslenskri fyrirmynd og mun hann fara fram þann 1. desember ár hvert. Það má því segja að hróður islenska forvarnarmódelsins fari víða.

Myndir með frétt