Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Birnir Freyr Hálfdánarsson með brons og nýtt unglingamet á EYOF í dag

27.07.2022

Þriðji keppnisdagur EYOF fór fram í dag þar sem Íslendingar kepptu í sundi, fimleikum og handknattleik. Í fimleikunum kepptu þær Arna Brá Birgisdóttir, Natalía Dóra S. Rúnarsdóttir og Ragnheiður Jenný Jóhannsdóttir í feykisterkum mótshluta. Keppt var í liðakeppni, í fjölþraut og um sæti í úrslitum á einstökum áhöldum og blönduðum úrslitum sem fara fram á morgun. Bestan árangur íslensku stúlknanna átti hún Arna Brá Birgisdóttir í fjölþraut en Ragnheiður Jenný þurfti að hætta keppni eftir tvö áhöld vegna meiðsla. Stelpurnar voru allar að keppa í fyrsta skiptið á upphækkuðum áhöldum (podium) og fara þær heim reynslunni ríkari.

Í sundinu byrjuðu þær Nadia Djurovic og Ylfa Lind Kristmannsdóttir. Nadia synti fyrst 200 metra skriðsund og kláraði í bakkann á 2:11.23 og endaði í 25. sæti með 638 FINA stig. Ylfa synti 100m flugsund næst og náði tímanum 1:06.92. Birnir Freyr Hálfdánarson keppti í átta manna úrslitum í 200 metra fjórsundi og hafnaði þar í þriðja sæti. Hann synti á 2:05.33 sem er bæting á unglingametinu sem hann setti í undanúrslitunum. Þetta er glæsilegur árangur hjá Birni en hann stingur sér til sunds aftur á morgun í 100 metra flugsundi.

Síðasti leikurinn í riðlinum í handknattleik fór fram í dag gegn Spánverjum. Barátta íslensku strákanna dugði ekki til í þetta sinn en Spánverjar höfðu betur í leiknum sem endaði með 9 marka mun, Spánverjum í vil 34:25 en staðan í hálfleik var 16:11.

Það verður mikið um að vera í Banská Bystrica á morgun en þá heldur keppni áfram í sundi, frjálsíþróttum, hjólreiðum og badminton og svo hefst einnig keppni hjá drengjunum okkar í judo.

Hér er hægt að nálgast myndir af mótinu.

 

Myndir með frétt