Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

07.05.2024 - 07.05.2024

Ársþing HSV 2024

Ársþing Héraðssambands Vestfirðinga (HSV)...
27

Ólympíuhlaupið 2022

05.09.2022

 

Ólympíuhlaupið er árlegur viðburður og er fastur liður í skólastarfi margra grunnskóla á landinu. Ólympíuhlaupið er liður í Íþróttaviku Evrópu og er hlaupið formlega opnað í einum skóla ár hvert. Að þessu sinni verður hlaupið opnað í Grunnskóla Grindavíkur miðvikudaginn 7. september nk.

Grunnskólar í landinu eru nú þegar farnir að ræsa út sitt fólk í Ólympíuhlaupi ÍSÍ og stóð til dæmis Grunnskóli Vestmannaeyja fyrir hlaupinu síðastliðinn föstudag.  Samkvæmt bæjarfjölmiðlinum Tígli í Vestmannaeyjum þá skein gleði úr andlitum krakkana bæði við byrjunarreit og endamark og má sjá margar skemmtilegar myndir frá hlaupinu í frétt Tíguls af hlaupinu hér.

Með Ólympíuhlaupi ÍSÍ er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Nemendur geta valið á milli vegalengdanna 2,5 km, 5 km og 10 km. Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri. Fyrst og fremst er lögð áhersla á holla hreyfingu og þátttöku sem flestra. Mjólkursamsalan (MS) hefur frá upphafi styrkt útgáfu viðurkenningarskjala á myndarlegan hátt og samstarfsaðili að þessu verkefni er eins og áður Íþrótta- og heilsufræðingafélag Íslands.

Allir skólar sem ljúka þátttöku í hlaupinu fyrir 10. október og skila inn upplýsingum til ÍSÍ eiga að auki möguleika á þremur útdráttarverðlaunum sem í boði eru. Hver þeirra þriggja skóla sem dregnir eru út fær 100.000 króna inneign í Altis, en Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu. Gert er ráð fyrir því að allir skólar hafi lokið hlaupinu fyrir árslok.

ÍSÍ hvetur grunnskóla landsins til þátttöku í Ólympíuhlaupinu 2022. Allir með!

Hægt er að skrá skóla til þátttöku hér.