Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.09.2024 - 12.09.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
9

Forvarnardagurinn er í dag

05.10.2022

 

Forvarnardagurinn er haldinn í 17. skipti í dag 5. október og af því tilefni var boðað til málþings í Austurbæjarskóla með yfirskriftinni „Hugum að verndandi þáttum - áskoranir í lífi barna og ungmenna“. Til máls tóku forseti Íslands, Hr. Guðni Th Jóhannesson, borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, Alma D. Möller landlæknir og Margrét Lilja Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu. 

Grunn- og framhaldsskólar landsins geta skráð sig til þátttöku á vefsíðu Forvarnardagsins og nálgast efni þar sem sjónum er sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Lögð er áhersla á verndandi þætti gegn áhættuhegðun; samveru með fjölskyldu, þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og því að leyfa heilanum að þroskast. Gengið er út frá því að skólar vinni verkefnin á tímabilinu 5. - 21. október og er það rýmri tímarammi en áður. Nemendur geta tekið þátt í verðlaunaleik sem kynntur er á vefsíðu Forvarnardagsins. Skilyrði fyrir þátttöku er að nemendur séu í 9. bekk grunnskóla eða á fyrsta ári í framhaldsskóla og að skólinn þeirra taki þátt í Forvarnardeginum. 

Í ár var ákveðið að horfa á októbermánuð sem forvarnarmánuð og lengja tímann þannig að fleiri hefðu tækifæri til að taka þátt. Sveitarfélög voru t.d. hvött til að setja forvarnir á dagskrá þennan mánuðinn. Mörg sveitarfélög hafa tekið vel í það og skipulagt dagskrá forvarna í októbermánuði í samstarfi við ýmsa aðila, félög og stofnanir í þeirra samfélagi. 

Að Forvarnardeginum standa; Embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Embætti landlæknis, Íþrótta-og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greining, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samfés, Heimili og skóli og Samstarf félagasamtaka í forvörnum. 

Myndir með frétt