Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

07.05.2024 - 07.05.2024

Ársþing HSV 2024

Ársþing Héraðssambands Vestfirðinga (HSV)...
7

„Verðum öll að hjálpast að” - Ávarp forseta ÍSÍ á hófi Íþróttamanns ársins

04.01.2023

 

Hér eftirfarandi er ávarp Lárusar L. Blöndal, forseta ÍSÍ, á hófi Íþróttamanns ársins 

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, mennta- og barnamálaráðherra, formaður Samtaka íþróttafréttamanna, fulltrúar Ólympíufjölskyldu ÍSÍ, ágæta afreksfólk og aðrir góðir gestir.

Það er virkilega ánægjulegt að bjóða ykkur velkomin til þessarar hátíðar Íþróttamanns ársins eftir tveggja ára hlé af völdum COVID.

Við ætlum hér að gera upp afrek íþróttafólksins okkar á árinu 2022. Árið var ánægjulega gjöfult sem kom skemmtilega á óvart svona strax í kjölfar COVID áranna, sem sett höfðu stórt strik í æfinga- og keppnisáætlanir afreksíþróttafólksins okkar og gáfu okkur stórar og áður óþekktar áskoranir að glíma við.

Þessi árlega hátíð er eins og áður samstarfsverkefni ÍSÍ, Samtaka íþróttafréttamanna, RÚV og Ólympíufjölskyldu ÍSÍ sem samanstendur af fyrirtækjunum Icelandair, Íslenskri getspá og Toyota en samstarfið við þessi valinkunnu fyrirtæki gerir okkur meðal annars mögulegt að halda þetta glæsilega hóf. Vil ég færa þeim öllum þakkir ÍSÍ fyrir gott samstarf.

Talandi um COVID og þar sem hér er staddur mennta- og barnamálaráðherra, þá vil ég þakka kærlega fyrir stuðning stjórnvalda við íþróttahreyfinguna í gegnum COVID árin. Sá stuðningur skipti gríðarlega miklu máli ekki einungis til að komast í gegn um COVID tímann heldur einnig að gera hreyfingunni kleift að endurreisa starfið af fullum krafti eftir COVID. Þessa dagana er verið að klára úthlutun til íþróttafélaga, deilda, sérsambanda og héraða á 450 milljónum kr. Samtals nemur COVID stuðningur stjórnvalda beint til íþróttahreyfingarinnar tæpum þremur milljörðum kr. Þá er ótalin stuðningur við iðkendur frá efnaminni fjölskyldum með íþrótta- og tómstundastyrkjum að fjárhæð 600 milljónum kr. Hafið mikla þökk fyrir þessa mikilvægu aðstoð.

Umhverfi afreksíþróttafólks á Íslandi er okkur í íþróttahreyfingunni sífellt ofarlega í huga. Nú nýverið skipaði mennta- og barnamálaráðuneytið starfshóp um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks og á ÍSÍ þar tvo fulltrúa. Hópnum er falið að yfirfara og leggja til breytingar á fyrirkomulagi, löggjöf og öðru sem þurfa þykir til að stuðningur við afreksíþróttafólk hér á landi verði í fremstu röð. Þá skal skoða sérstaklega kostnaðarþátttöku í landsliðsstarfi bæði í eldri og yngri landsliðum. Áætlað er að starfshópurinn skili tillögum að breytingum fyrir 1. maí 2023. Viðræður eru í gangi á milli mennta- og barnamálaráðuneytis og ÍSÍ um að efla og bæta afreksíþróttastarfið í landinu enn frekar og byggja meðal annars á vinnu starfshópsins.

Það er ljóst að við þurfum mun meira fjármagn til afreksstarfsins. Afrekssjóður ÍSÍ var efldur gríðarlega með samningum við ríkið árið 2016. Var þar um algera byltingu að ræða frá því sem áður var. Síðan þá hefur sjóðurinn hins vegar rýrnað um meira en 100 milljónir kr. að raungildi vegna verðlagsbreytinga. Það verður að snúa þeirri þróun við. Það er verkefni sem ekki má bíða.

Ég hef á þessum sama vettvangi áður talað um lýðréttindi afreksíþróttafólks og þau eru mér enn hugleikin. Huga þarf að þáttum eins og fæðingarorlofi, námslánum, heilbrigðisþjónustu, tryggingum, sveigjanleika í skólakerfinu og ekki síst framfærslu afreksíþróttafólksins. Allt hlutir sem þarf breyta og bæta svo afreksíþróttafólkið okkar geti stundað íþrótt sína svo sómi sé að, í sambærilegu umhverfi og tíðkast í löndum sem við berum okkur helst saman við. Þessi mál eru í vinnslu í góðu samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið sem hefur sýnt þessu hagsmunamáli mikinn áhuga og skilning.

Afreksíþróttafólk sprettur ekki upp af sjálfu sér heldur þarf sterkt og öflugt grasrótarstarf til að gefa af sér gott afreksíþróttafólk. Í því samhengi má ekki gleyma því gríðarstóra hlutverki sem sjálfboðaliðar í hreyfingunni sinna. Í þessu samhengi er rétt að það komi fram að fjöldi sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni er áætlaður af fræðimönnum sem það hafa fjallað yfir 30 þúsund manns eða um 10% þjóðarinnar.Sjálfboðaliðar bera uppi stóran hluta íþróttastarfsins. Þeir eru allt um kring í starfinu, sinna litlum og stórum verkefnum og hlutverkum, koma að þjálfun, dómgæslu, liðsstjórn, fararstjórn, miðasölu, grillstjórn og leiðtogastarfi í nefndum, stjórnum, ráðum og dómstólum, svo eitthvað sé nefnt.

Í kvöld ætlum við einmitt að beina kastljósinu að sjálfboðaliðanum í hreyfingunni með því að útnefna í fyrsta skipti Íþróttaeldhuga ársins. Þrír einstaklingar verða heiðraðir fyrir frábær og langvarandi störf í þágu íþrótta og einn þeirra mun svo hreppa titilinn Íþróttaeldhugi ársins 2022. Sá aðili hlýtur veglegan verðlaunagrip sem Sigurður Ingi Bjarnason gullsmiður hefur hannað sérstaklega fyrir þetta verkefni. Verkefnið Íþróttaeldhugi ársins er samstarfsverkefni ÍSÍ og Lottós, og verður tilnefnt til viðurkenningarinnar árlega.

Sjálfboðaliðar eru okkur afar mikilvægir og viljum við með  þessu sýna þakklæti okkar í garð allra sjálfboðaliða í hreyfingunni. Flestir sjálfboðaliðar eru foreldrar og forsjáraðilar iðkenda, sem styðja ómetanlega við bakið á íþróttastarfinu dags daglega með fjölbreyttum hætti og óbilandi drifkrafti. Margir þeirra halda áfram að styðja íþróttastarfið löngu eftir að þeirra börn hafa hætt iðkun og keppni, ekki síst vegna félagslega þáttarins. Það þarf líka að vera gaman og við verðum öll að hjálpast að við að viðhalda jákvæðri og uppbyggilegri menningu innan okkar vébanda. Næra félagsandann og góð samskipti. Við þurfum að viðhalda sveigjanleika, sanngirni, tillitsemi, hjálpsemi og umburðarlyndi í hreyfingunni um leið og við þurfum að styrkja regluverkið og verkferla. Við þurfum að auðvelda sjálfboðaliðum að takast á við erfiðu verkefnin. Það höfum við meðal annars gert með útgáfu samræmdrar viðbragðsáætlunar sem nú er til staðar fyrir alla aðila sem koma að íþrótta- og frístundastarfi í hreyfingunni, en einnig má nefna tilkomu embættis samskiptaráðgjafa, sem mennta- og barnamálaráðuneytið kom á laggirnar og reynst hefur afar vel við úrlausn erfiðra mála í íþróttahreyfingunni.

Eitt stórt verkefni sem skiptir íþróttahreyfingunna mjög miklu máli er nú komið í farveg; það er bygging Þjóðarhallar fyrir inniíþróttir. Skipuð hefur verið framkvæmdanefnd sem nú þegar hefur starfað í nokkra mánuði en stefnt er að því  að framkvæmdum við Þjóðarhöllina verði lokið í lok árs 2025. Við treystum því að það muni takast enda þörfin fyrir betra mannvirki fyrir æfingar landsliða og alþjóðlegar keppnir innanhúss mjög knýjandi. Þá er beðið eftir nýjum þjóðarleikvöngum fyrir aðrar íþróttagreinar eins og t.d. knattspyrnu en unnið hefur verið að því verkefni í mörg ár.

Ég vil að lokum þakka íþróttaforystufólki – íþróttafélaga, sérsambanda og íþróttahéraða fyrir mikilvægt framlag þeirra til starfsins. Þá vil ég einnig þakka þjálfurum og aðstoðarfólki íþróttafólksins sem skapa umgjörð til framtíðar fyrir þeirra framlag sem og aðstandendum sem oftast eru mikilvægustu bakhjarlar afreksfólksins okkar.

Ég óska ykkur öllum til hamingju með árangurinn á yfirstandandi ári og ég veit að við hlökkum öll til íþróttaársins 2023. Það verður stórt og spennandi ár hjá ÍSÍ,  með tveimur Ólympíuhátíðum Evrópuæskunnar, Smáþjóðaleikum og Evrópuleikum, til viðbótar við krefjandi verkefni af öllu tagi hér heima við. Þá verða sérsamböndin með sín stóru verkefni bæði hér heima og erlendis.

Að lokum óska ég ykkur öllum gæfu og gleði á nýju ári.

Takk fyrir!