Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
8

Miðasala á ÓL í París 2024 - Áríðandi upplýsingar!

24.01.2023

 

Ólympíuleikarnir í París 2024 verða í seilingarfjarlægð fyrir Íslendinga og gefst því frábært tækifæri fyrir áhugasama að sækja viðburði á Ólympíuleikum. Ólympíuleikar eru alltaf stórkostleg íþróttaveisla og allir viðburðir á leikunum eru spennandi. Keppnissvæðin í París eru mörg hver staðsett við frægustu kennileiti borgarinnar og gera má ráð fyrir góðri stemningu og gríðarlega spennandi íþróttaviðburðum.

Miðasala á viðburði á Ólympíuleikana í París 2024 er með allt öðru sniði en fyrri ár. Salan fer nú einungis fram í gegnum skipuleggjendur leikanna en ekki með aðkomu Ólympíunefnda heims, líkt og á undangengnum leikum. Alls verða 10 milljón miðar til sölu á alls 750 keppnisviðburði (sessions) í 32 íþróttagreinum, í 37 mannvirkjum. 

Þrjú miðasöluferli verða í boði. Fyrsta miðasöluferlið er yfirstandandi en möguleikinn á að fá að kaupa miða í því ferli felst í skráningu á tickets.paris2024.org fyrir kl. 17 þann 31. janúar nk., sjá nánari leiðbeiningar hér neðar í færslunni. Þetta miðasöluferli inniheldur eingöngu sölu á svokölluðum Games Packs eða miðapökkum sem samanstanda af þremur lotum (sessions). Til að gæta sem mests jafnræðis varðandi úthlutun miða þá hafa skipuleggjendur sett upp miðalottó fyrir ferlið. Eingöngu þeir sem verða dregnir út í miðalottóinu hafa möguleika á að kaupa miðapakkana í þessu fyrsta ferli sölunnar en hver þeirra sem dreginn verður út getur keypt fleiri en einn pakka. Hver einstaklingur sem skráir sig og stofnar aðgang getur keypt allt að 30 miða samtals á leikana. Ekki verður hægt að panta miða í setningar- og lokaathöfn í þessu fyrsta ferli.

Þeir sem ætla að freista gæfunnar í miðalottóinu fyrir miðapakkana fylgja eftirfarandi skrefum:

1.    Skráðu þig til þátttöku í miðalottóinu á eftirfarandi slóð fyrir kl. 17 þann 31. janúar næstkomandi (2023):  tickets.paris2024.org

Ekki er um að ræða „fyrstur kemur, fyrstur fær“. Sá sem skráir sig síðasta mögulega daginn í skráningarferlinu hefur sömu möguleika og þeir sem skráðu sig á fyrsta degi skráningartímabilsins.

2.    Kynntu þér dagskrá leikanna, staðsetningu og miðaverð 

Megin keppnissvæði leikanna er Parísarborg en einnig verða viðburðir í fleiri borgum, til dæmis í Lille og Marseille. Sem dæmi má nefna að undankeppnin í körfuknattleik og úrslitin í handknattleik fara fram í Lille og siglingakeppnin verður í Marseille. Það er mikilvægt að vera búinn að kynna sér vel viðburði leikanna og ákveða samsetningu miðapakkanna, til að vera með allt á hreinu ef heppnin verður með þér í miðalottóinu.

3. Hafðu auga með tölvupóstinum þínum!

Á milli 13. febrúar og 15. mars 2023 opnast söluglugginn. Sá gluggi verður einungis opinn i 48 stundir svo að það verður að bregðast skjótt við. Fylgstu vel með tölvupóstinum þínum og ruslpóstinum, svo þú missir ekki af tækifærinu. 

4. Settu saman óskapakkann þinn!

Eins og fram kemur hér að ofan þá er íþessu ferli eingöngu hægt að kaupa miðapakka (Games packs) sem samanstanda af þremur lotum (sessions), samsettum úr þeim íþróttum sem þú hefur merkt við að þú hafir áhuga á. Loturnar (sessions) eru hver um sig hluti eða partur af keppnisdegi og hver slíkur hluti inniheldur einn eða fleiri keppnisviðburð. Hægt er að kaupa að hámarki 30 miða per. aðgang (account). 

Hér er að finna góðar leiðbeiningar (á ensku) og hagnýtar upplýsingar um ofangreint ferli.

Þeir sem einnig skrá sig aukalega í Club Paris 2024 hafa ákveðinn forgang í miðasöluferlinu, þ.e. skráning í klúbbinn eykur líkurnar á því að þeir fái bestu miðana, verði þeir dregnir út í miðalottóinu og panti miða.

Annað miðasöluferlið mun hefjast í maímánuði 2023 og verður einnig um miðasölulottó að ræða. Í því ferli verður hægt að kaupa staka miða á viðburði og þá verður einnig hægt að kaupa miða á setningar- og lokahátíð.

Lokaferli í miðasölu verður svo í lok ársins 2023 þegar þeir miðar sem þá verða eftir í pottinum verða settir í almenna sölu. Sú sala mun ekki fara fram í gegnum miðalottó.

Samhliða ofangreindu þá er hægt að kaupa VIP-pakka í gegnum fyrirtækið On Location, samstarfsaðila ÓL í París en þeir eru dýrari þar sem þeir innihalda allir eitthvað aukalega, t.d. ferðir, gistingu, mat og upplifun sem og miða á viðburði . On Location býður upp á nokkrar gerðir af VIP pökkum og einnig er möguleiki á að setja saman sérsniðna pakka eftir óskum. Allar upplýsingar varðandi VIP pakka On Location má finna með því að smella hér.

Allar nánari upplýsingar varðandi miðamál leikanna er að finna á heimasíðu leikanna