Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Aðalfundur ENGSO á Krít

22.05.2023

 

Dagana 12. og 13. maí fór aðalfundur ENGSO fram á Krít í Grikklandi, en fundinn sóttu fyrir hönd ÍSÍ þær Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir úr framkvæmdastjórn ÍSÍ og Ragnhildur Skúladóttir sviðsstjóri Fræðslu-og almenningsíþróttasviðs ÍSÍ.

Fundurinn hófst með stuttri málsstofu um jafnrétti, inngildingu og fatlanir og var málstofunni stýrt af Íþróttasamtökum fatlaðra í Grikklandi. Þrír fatlaðir íþróttamenn deildu sögum sínum um valdeflingu í gegnum íþróttir og kynntu áskoranir og framfarir Ólympíuhreyfingar fatlaðra í Grikklandi. Að þessu loknu fór fram opinber opnun þar sem Stefan Bergh forseti ENGSO, Lefteris Avgenakis, aðstoðaríþróttaráðherra Grikklands, Giorgo Pitsoulis, aðstoðarhéraðsstjóri Krítar og Georgios Kapellakis, forseti grísku Ólympíunefndar fatlaðra, buðu þátttakendur velkomna til Krítar í Grikklandi og lýstu yfir stuðningi við skipulagðri grasrótarhreyfingu í Evrópu. 

Viðburðurinn hélt áfram með vinnustofu þar sem þátttakendur ræddu sín á milli um stefnumótun ENGSO og komu með ábendingar um atriði sem mátti athuga og bæta. Í lok dags kynnti formaður Jafnréttisnefndar ENGSO (Equlity Within Sports) stöðuskýrslu nefndarinnar um jafrétti kynjanna í íþróttasamtökum Evrópu. Að því loknu voru niðurstöður úr verkefni um sjálfbærni kynntar fyrir þátttakendum. 

Þann 13. maí fór aðalfundur ENGSO fram ásamt aðalfundi ENGSO Youth, en áður en til þeirra kom fór fram kynning á Erasmus+ styrkjakerfinu, með áherslu á „mobility" hluta kerfisins sem gengur út á að starfsmenn íþróttahreyfinga geta sótt um styrk til að kynna sér starfsemi íþróttasamtaka í öðrum löndum. Aðalfundirnir innihéldu skýrslu stjórna, fjármál og áætlanir 2024-2027.

Í lok þings var tilkynnt um að Ólympíunefnd fatlaðra í Evrópu væri orðin fullgildur meðlimur í ENGSO.

Myndir með frétt