Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

07.05.2024 - 07.05.2024

Ársþing HSV 2024

Ársþing Héraðssambands Vestfirðinga (HSV)...
2

Vel heppnuð íþróttaráðstefna á Akureyri

25.09.2023

 

Síðastliðinn laugardag, 23. september, var haldin íþróttaráðstefna á Akureyri sem bar yfirskriftina Farsæll ferill: Íþróttaferill í meðbyr og mótbyr! Á ráðstefnunni ræddu innlendir og erlendir sérfræðingar um það hvernig einstaklings- og umhverfisþættir geta tengst andlegri heilsu og frammistöðu í íþróttum og hvað hægt sé að gera til að ýta enn frekar undir farsælan feril í íþróttum.  

Meðal fyrirlesara voru Göran Kenttä, sænskur íþróttasálfræðingur, Peter O'Donoghue, prófessor við íþróttafræðideild HR, Vésteinn Hafsteinsson, Afreksstjóri ÍSÍ, Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og forseti Íþróttadeildar HR, Dr. Johanna Belz, þýskur íþróttasálfræðingur og Daði Rafnsson, doktorsnemi við Sálfræðideild HR.

Ráðstefna þessi var hluti af verkefnum samstarfshóps um fræðslu fyrir íþróttahreyfinguna á Akureyri og nágrenni og er eitt stærsta verkefnið sem samstarfshópurinn hefur ráðist í.  Ráðstefnan tókst frábærlega, þar sem fyrirlesararnir voru með mjög áhugaverð erindi og ráðstefnugestir ánægðir með skipulag og framkvæmd ráðstefnunnar en um 70 manns hlýddu á.  

Hugtakið Self-compassion sem hefur verið þýtt sem „sjálfs mildi“ fékk talsverða umfjöllun á ráðstefnunni hvað varðar mikilvægi þess að íþróttaiðkendur geri ekki óeðlilegar kröfur á sjálfa sig, sem þeir geta svo ekki staðið undir.  Þá var einnig athyglisvert að heyra hvað fyrirlestrarnir studdu allir hvern annan þrátt fyrir mismunandi nálganir á viðfangsefninu.  Það var því einkar ánægjulegt hversu mikill samhljómur virtist vera í þeim fjölmörgu þáttum sem skipta máli svo íþróttaferill geti orðið farsæll.  

Fjölmargar spurningar komu frá ráðstefnugestum úr sal til þeirra sem sátu í pallborðsumræðunum í lok ráðstefnunnar og sköpuðust líflegar og skemmtilegar umræður þegar fyrirlesararnir gerðu sitt besta til að svara þeim vel og skilmerkilega.

Auk ÍSÍ eru í samstarfshópnum Íþróttabandalag Akureyrar, Akureyrarbær og Háskólinn á Akureyri.  Það er von hópsins að framhald verði á og hægt verði að bjóða upp á íþróttatengda ráðstefnu á Akureyri árlega.

Hér má sjá dagskrá ráðstefnunnar.

Myndir með frétt