Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

14

Fimm íþróttagreinar staðfestar til viðbótar á þingi Alþjóðaólympíunefndarinnar

19.10.2023

 

Á sunnudag, 15. október, hófst 141. þing Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) og lauk því í gær, miðvikudag. Á þinginu voru teknar ákvarðanir um ýmis mál er varða ólympísk málefni.

Í gær voru staðfestar fimm viðbótar íþróttagreinar sem keppt verður í á Ólympíuleikunum í Los Angeles 2028.  Þær eru:  Hafnabolti/mjúkbolti, krikket (T20), amerískur fánafótbolti, háfleikur (e.lacrosse) og skvass.  

Áður var búið að staðfesta 28 íþróttagreinar á leikunum en þing IOC bætti einnig við tveimur greinum, nútíma fimmtarþraut og ólympískum lyftingum, þannig að alls verður keppt í 35 íþróttagreinum á leikunum árið 2028. Á bið er ákvörðun um keppni í hnefaleikum en Alþjóðahnefaleikasambandinu var vikið úr IOC fyrir skömmu og ekki útséð með áhrifin sem það hefur á stöðu íþróttarinnar.

Allar þær greinar sem samþykktar eru sem keppnisgreinar á Ólympíuleikum, fá stöðuna „ólympísk íþrótt” á meðan þær eru formlega á keppnisdagskrá Ólympíuleika. Þannig fellur breikdansíþróttin úr þeirri stöðu að loknum Ólympíuleikunum í París þar sem sú íþrótt verður ekki á dagskrá á leikunum 2028 en brimbrettaíþróttin, klifur og hjólabretti halda þeirri stöðu áfram, a.m.k. fram yfir leikana í Los Angeles 2028.