Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.09.2024 - 12.09.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22.10.2026 - 28.11.2019

YOG 2026 - Dakar

Ólympíuleikar ungmenna (YOG) fara fram í...
9

Reynslumikið heilbrigðisteymi ÍSÍ

05.08.2024

 

Á Ólympíuleikunum er ávallt með í för heilbrigðisteymi sem aðstoðar íslensku keppendurna við að hugsa sem best um sig og hjálpar þeim með góð ráð fyrir og eftir átök. Í heilbrigðisteymi ÍSÍ að þessu sinni eru fimm færir sérfræðingar, sem allir gegna mikilvægum hlutverkum fyrir keppendur. 

Örnólfur Valdimarsson, læknir, er á sínum fimmtu Ólympíuleikum. Hans hlutverk er ekki bara að meðhöndla meiðsli og veikindi heldur gefur einnig fyrirbyggjandi ráð og meðferðir fyrir keppendur og aðra í teyminu. Hann tók sjálfur þátt í Vetrarólympíuleikum árið 1992 í Albertville í Frakklandi en hann æfði lengi skíði og stóð sig afar vel.

Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur, er á sínum fjórðu leikum. Hafrún hefur unnið náið með mörgum íþróttamönnum og keppendum á Ólympíuleikum og hennar hlutverk er ekki bara að stíga inn þegar stressið tekur völdin heldur miðlar hún til keppenda góðum ráðum um hvernig eigi að höndla ýmsar erfiðar aðstæður og vera á sem bestum stað andlega fyrir stóru stundina. Hún er sjálf margreynd handknattleikskona þó hún hafi aldrei keppt á Ólympíuleikum.

Sjúkraþjálfararnir í hópnum eru tveir, en þeir skipta með sér verkum og var Róbert Magnússon fyrri hluta keppninnar og Pétur Einar Jónsson verður seinni hlutann. Sjúkraþjálfarar undirbúa keppendur líkamlega fyrir æfingar og stóru stundirnar með ýmsum meðhöndlunum, auk þess sem þeir taka á móti þeim eftirá og veita þeim meðferðir ef þurfa þykir eftir átök. Sjúkraþjálfararnir hafa báðir verið með í heilbrigðisteyminu á fernum Ólympíuleikum.

Nils Guðjón Guðjónsson, nuddari, er á sínum fyrstu Ólympíuleikum. Hans hlutverk er að mýkja auma og stirða vöðva sem og aðstoða eftirá við endurheimt. Það er alltaf nóg að gera hjá Nils. Hans íþróttareynsla var á júdósviðinu og þó að árin hafi ekki verið mörg í júdóinu þá þekkir hann vel hvernig þarf að meðhöndla afreksíþróttafólk við krefjandi aðstæður.

Á myndina vantar Pétur Einar Jónsson, sem ekki var kominn til Parísar þegar myndin var tekin.