Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
14

Kúla og kringla Gunnars Huseby

25.10.2024

 

ÍSÍ fékk góða gesti í heimsókn í Íþróttamiðstöðina í Laugardal í gær þegar Ingólfur Eyfells og Ingibjörg Eyfells komu færandi hendi með sögufræga íþróttamuni til varðveislu hjá ÍSÍ.

Árið 1963 áskotnaðist Ingólfi kúla og kringla úr eigu Gunnars Huseby, en Gunnar var einn fremsti frjálsíþróttamaður okkar Íslendinga. Hann var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ fyrir íþróttaafrek sín á Íþróttaþingi árið 2015. Þessa muni keyptu Ingólfur og Stefán Árnason af Gunnari þegar hann var starfsmaður Vatnsveitu Reykjavíkur, en líklegt er að Gunnar hafi notað þá við æfingar og keppni. Gunnar var fjölhæfur íþróttamaður sem náði góðum árangri á sínum íþróttaferli, sérstaklega í kúluvarpi og kringlukasti.

Ingibjörg og Ingólfur komu einnig með gamla hraðhlaupaskauta og heimatilbúna skerpigræju sem Einar Eyfells, verkfræðingur og afreksmaður á skíðum og skautum, smíðaði af miklum hagleik. Það er áhugavert að sjá búnaðinn sem notaður var á sínum tíma og gera sér í hugarlund þær aðstæður sem okkar besta íþróttafólk bjó við á þeim tíma. Einnig fylgdu með skautar Ingibjargar, sem eru mjög vel með farnir og fallegir.

Myndirnar sem fylgja eru af Ingibjörgu og Ingólfi og mununum sem þau færðu ÍSÍ.
ÍSÍ þakkar þeim báðum kærlega fyrir komuna og munina! 

Vonandi mun framtíðin bera í skauti sér íþróttatengt safn svo fleiri njóti þeirra muna og minja sem safnast hafa hjá ÍSÍ og fleirum og tengjast íþróttasögu þjóðarinnar.

Myndir með frétt