„Þetta er íþrótt sem flestir geta stundað“
Benedikt Ófeigsson var í mars kjörinn nýr formaður Klifursambands Íslands á fjórða ársþingi sambandsins. Það eru eflaust einhverjir sem þekkja Benedikt af öðrum vettvangi en klifrinu því hann hefur verið áberandi í fréttaflutningi síðustu tvö ár vegna jarðhræringanna á Reykjanesi. En hvernig voru fyrstu kynni nýs formanns Klifursambandsins af klifri?
„Mín fyrstu kynni af klifrinu má í raun segja að hafi verið fyrir 22 árum, þá prófaði ég klifur sem nýliði í björgunarsveit. Á þeim árum var ég í námi og að stofna fjölskyldu svo áhuginn lá í dvala þar til ársins 2015. Þá var ég að reyna að finna íþrótt fyrir son minn sem var sex ára og hafði ekki fundið sig í „hefðbundnum“ íþróttum. Frá því hann lærði að ganga var hann klifrandi upp um allt og þá prófuðum við klifur. Þarna kviknaði áhuginn á ný og ég fór að nota tímann á meðan sonur minn var á æfingu til þess að klifra sjálfur. Fljótlega var ég farinn að æfa 4-5 sinnum í viku. Ég náði að fá dóttur mína til að byrja að stunda íþróttina líka og þanni gat ég stundað líkamsrækt án þess að taka tíma frá fjölskyldunni.“Hvernig er staða klifursins á Íslandi og hvert langar þig að sjá íþróttina stefna?
„Þó að klifur hafi verið stundað hér á landi um áratugaskeið er greinin ung sem keppnisíþrótt. En hún er hratt vaxandi og í mikilli þróun. Sem dæmi fjölgaði skráðum iðkendum um meira en 150 frá 2024 og 2025 og nú eru yfir 2090 iðkendur. Áhuginn jókst mikið hjá almenningi eftir að klifur varð grein á Ólympíuleikunum og þá sáum við einmitt þessa miklu fjölgun í skráðum iðkendum. Sex félög og deildir víða um land heyra undir Klifursambandið en tvö stærstu félögin eru á höfuðborgarsvæðinu þar sem eru yfir 90% skráðra iðkenda. Það má því segja að framtíð klifurs sem keppnisíþrótta á Íslandi sé björt,“ segir Benedikt, en bendir jafnframt á að þessum hraða vexti fylgi margar áskoranir. „Þessi mikli áhugi þýðir að við þurfum að fara í talsverða uppbyggingu á aðstöðu til æfinga og keppni, ásamt því að fjölga þjálfurum. Klifrið er ung grein og því hefur aðaláhersla aðildarfélagana hingað til verið að byggja upp barna- og unglingastarf og við erum þegar farin að sjá það skila sér í ungu íþróttafólki sem stöðugt er að ná betri árangri á alþjóðamótum. Nú þegar eigum við íþróttafólk sem er að keppa á heims- og Evrópumeistaramótum fullorðinna og mörg ungmenni að banka á dyrnar. Á næstu 4-8 árum langar mig að sjá að við byggjum upp grunn af íþróttafólki sem á raunhæfan möguleika á að keppa um sæti á Ólympíuleikum. Til þess að það sé mögulegt þurfum við að styðja við aðildarfélöginí áframhaldandi uppbyggingu á barna- og unglingastarfi sem getur þá stutt við afreksefni okkar til fullorðinsára. Það þarf því að byggja upp frekari æfingaastöðu og koma upp keppnisaðstöðu því það er því miður ekki nógu góð aðstaða á landinu til að halda klifurkeppnir. Þessu þarf svo að sjálfsögðu að fylgja eftir með áframhaldandi menntun þjálfara og dómara.“
Benedikt er fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands og það er því óhætt að segja að hann hafi margt á sinni könnu þessa dagana.
„Það hefur verið alltof mikið að gera síðustu árin og sérstaklega síðustu 16 mánuðina. Því miður hefur mér ekki tekist að æfa eins og ég gerði en ég stefni á að bæta úr því og fara að æfa markvisst aftur. Ég hef þó náð að vinna einhverja sjálfboðavinnu þrátt fyrir annir, bæði fyrir Klifurfélag Reykjavíkur í undirbúningi Reykjavíkurleikanna og setið í stjórn ÍBR ásamt því að vera í stjórn Klifursambandsins undanfarið ár. Vegna anna hef ég ekki náð að gera allt sem ég hefði viiljað en það hefur þó verið mjög gott fyrir mig að geta tekið hugann frá vinnunni og einbeitt mér að einhverju öðru annað slagið.“
Þau sem vilja kynna sér klifur geta fundið allar helstu upplýsingar á heimasíðu Klifursambandsins.