Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.04.2025 - 26.04.2025

Ársþing ÍF 2025

Ársþing Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) verður...
27.04.2025 - 27.04.2025

Ársþing HHF 2025

Ársþing Héraðssambands Hrafna-Flóka (HHF)...
25

Ráðherra mun skipa vinnuhóp vegna skattamála

11.04.2025

 

Í lok síðasta árs sendu skattayfirvöld erindi á íþróttafélög þar sem forsvarsmönnum félaga, sem eiga lið í efstu og næstefstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu og efstu deildum karla og kvenna í handknattleik og körfuknattleik, var gerð grein fyrir skyldu íþróttafélaga til þess að standa skil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi af greiðslum til íþróttamanna og þjálfara. Skorað var á forsvarsmenn félaga að koma skilum í rétt lag til framtíðar horft.

Þótt að erindinu hafi eingöngu verið beint til framangreindra félaga þá var þess jafnframt óskað að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) geri sambandsaðilum sínum og öðrum hagsmunaaðilum grein fyrir tilmælum ríkisskattstjóra og verði embættinu innan handar að halda íþróttafélögum á réttri leið í þessum efnum.

Í kjölfarið voru haldnir nokkrir fundir í hreyfingunni þar sem erindið var rætt. Frá þessum fundum bárust ályktanir þar sem m.a. var skorað á stjórnvöld að eiga í uppbyggilegu samtali við íþróttafélögin í landinu um starfsumhverfi þeirra og tryggja að rekstrargrundvellinum sé ekki kippt undan þeim. Það væri skýr vilji allra að vinna náið með löggjafanum sem og skattayfirvöldum til að finna góða og sanngjarna leið að lausn málsins.

Þessi málefni hafa verið í umræðu á vettvangi ÍSÍ og innan fjölda eininga íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Fjármál íþróttahreyfingarinnar er ein grunnstoðin gagnvart öllu starfi og við verðum að gera það sem við getum til að búa þannig um hnútana að þessi hreyfing geti starfað með sem árangursríkustum hætti, hvort sem um ræðir grasrótarstarf eða afreksstarf, því þetta helst allt í hendur. Settur var í gang starfshópur með fulltrúum ÍSÍ, ÍTF, UMFÍ auk nokkurra sérsambanda og var leitað liðsinnis Deloitte sem leiddi vinnuna, en starfsmenn Deloitte hafa undanfarin misseri unnið mikið með íþróttahreyfingunni í tengslum við fjárhagsumhverfi hennar.

Í lok febrúar var svo sent erindi fyrir hönd starfshópsins til fjármála- og efnahagsráðherra þar sem óskað var eftir fundi með ráðherra til að ræða skattamál hreyfingarinnar í framhaldi af endurútgefnum leiðbeiningum Skattsins frá árinu 2024 og tölvupósti sem Skatturinn sendi íþróttafélögum í efstu deildum í knattspyrnu, handknattleik og körfuknattleik í desember síðastliðnum. Að auki kom fram að það væri góðfúsleg ósk starfshópsins að ráðherra myndi skoða að skipa vinnuhóp með fulltrúum ráðuneytisins, starfshóps íþróttahreyfingarinnar, ráðuneytis íþróttamála og Skattsins til að meta og vinna nánar úr tillögum sem fjallað var um í erindinu. Samhliða því sem vinnuhópurinn væri að störfum væri mikilvægt að Skatturinn bíði átekta með frekari skoðanir á málefnum íþróttafélaga, enda hagsmunir ríkisins, sveitarfélaga, íþróttafélaga og samfélagsins samofnir um að tryggja öflugt íþrótta-, æskulýðs- og forvarnarstarf á Íslandi til lengri tíma.

Ráðherra tók vel í erindið og boðaði fund með fulltrúum starfshópsins. Á þeim fundi var samþykkt að skipa vinnuhóp vegna þessara mála og mun hann hefja störf á næstunni. Nánari upplýsingar munu verða sendar inn í hreyfinguna þegar vinnuhópurinn hefur hafið störf.