Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22.10.2026 - 28.11.2019

YOG 2026 - Dakar

Ólympíuleikar ungmenna (YOG) fara fram í...
20

Páll Janus nýr svæðisfulltrúi á Vestfjörðum

20.08.2025

 

Páll Janus Þórðarson er nýr svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á Vestfjörðum og hefur hann störf þann 1. september. Páll Janus kveðst spenntur fyrir starfinu enda búinn að kynnast öllum hliðum íþróttalífsins fyrir vestan. 

„Íþróttir hafa lengi átt ríkan sess í samfélaginu hér fyrir vestan og það er sannur heiður að fá að taka þátt í jafn spennandi nýjung og svæðisfulltrúastarfinu. Ég hef verið tengdur íþróttalífinu frá unga aldri – sem iðkandi, þjálfari, stjórnarmaður og síðast sem foreldri. Þessi reynsla hefur kennt mér hversu mikilvægt það er að hlúa að öflugu íþróttastarfi og skapa ný tækifæri til vaxtar og þróunar,“ segir Páll Janus, sem mun starfa við hlið Birnu Hannesdóttur sem einnig er svæðisfulltrúi á Vestfjörðum.

Ég sé tækifæri í því að nýta þau samlegðaráhrif sem dreifbýlið hefur kennt okkur að meta. Dæmi um þetta er samþætt þjálfun milli íþróttagreina, sem hægt væri að finna flöt á í samstarfi við héraðs- og sérgreinasamböndin. Einnig tel ég að við gætum nýtt hvatasjóð ÍSÍ og UMFÍ betur hér á svæðinu, en sjóðurinn styður verkefni sem miða að aukinni þátttöku barna í íþróttum, sérstaklega barna með fötlun, af tekjulægri heimilum eða með fjölbreyttan menningarlegan bakgrunn.
Tækifærin eru víða – og eflaust víðar en maður gerir sér fyrst grein fyrir. Samtöl við fólk innan hreyfingarinnar og frá grasrótinni leiða jafnan af sér nýjar hugmyndir og það er alltaf jafn hvetjandi að heyra frá þeim sem standa í eldlínunni.

Heilt yfir er ég mjög spenntur fyrir því að hefja störf. Ég hlakka til að efla tengsl hreyfingarinnar hér fyrir vestan við svæðisfulltrúa á landsvísu. Hópurinn býr yfir mikilli reynslu og þekkingu sem ég hlakka til að kynnast og nýta til að styðja við íþróttastarf í fjórðungnum.

Svæðisfulltrúar íþróttahéraðanna

Starfsfólk svæðisstöðva íþróttahéraðanna eru sextán talsins um allt land og í öllum landshlutum. Hver svæðistöð styður við íþróttahéruð á sínu svæði og hjálpar þeim að innleiða stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum. Starfsemi svæðisstöðvanna hófst fyrir um ári. Ein af áherslum svæðisstöðvanna er að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi á Íslandi, sérstaklega börn með fatlanir, frá tekjulægri heimilum og þau sem hafa fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. 

Hér má lesa nánar um svæðisstöðvar íþróttahéraðanna.