Forvarnardagurinn settur í 20. sinn á morgun
.jpg?proc=400x400)
Miðvikudaginn 1. október verður Forvarnardagurinn 2025 settur í 20. sinn með málþingi í Vogaskóla. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og er þá sjónum beint sérstaklega að ungmennum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Skólar skrá sig til þátttöku og vinna verkefni Forvarnardagsins á tímabilinu 1.-24. október.
Málþing Forvarnardagsins
Miðvikudagur 1. október, kl. 9:00 – 10:00.
Sjá viðburð á facebook og streymi
Dagskrá málþings:
Skólastjóri býður gesti velkomna
Fundarstjórn – Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsusviðs Embættis landlæknis
Til máls taka:
• Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir
• Landlæknir, María Heimisdóttir
• Borgarstjóri, Heiða Björg Hilmisdóttir
• Riddarar kærleikans – Embla og Kári
• Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir frá Jafningjafræðslu Hins hússins
• Skýrsla Forvarnardags 2024 - Birtar verða tilvitnanir í svör ungmenna
Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins og samstarfsaðilar eru embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Rannsóknir og greining, Planet Youth, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Samfés, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Bandalag íslenskra skáta, Ríkislögreglustjóri og Heimili og skóli.
Um Forvarnardaginn
Verkefni Forvarnardagsins hafa frá upphafi verið byggð á rannsóknum. Skólar fá aðgang að verkefnum í glæruformi þar sem kennarar fara yfir verndandi þætti og hvað hægt er að gera til að auka vellíðan. Rannsóknir hafa sýnt að samvera með fjölskyldunni, þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og það að leyfa heilanum að þroskast án neikvæðra áhrifa eru verndandi þættir fyrir áhættuhegðun. Við vinnslu verkefnis í skólunum munu nemendur svara í upphafi 2-3 spurningum þar sem fram koma þeirra skoðanir um hvað þarf til að lifa heilbrigðu lífi og hvaða þættir gætu haft áhrif þar á. Einnig munu nemendur í framhaldsskólum ræða hvað veldur breyttu viðhorfi gangvart áfengis notkun þegar ungmenni eru komin í framhaldsskóla. Í ár verður einnig lagt fyrir nemendur verkefni um síma, skjátæki og samfélagsmiðla og hvaða hugmyndir þau hafa um áskoranir og lausnir í tengslum við það. Þessum svörum ungmenna er síðan safnað saman í skýrslu sem er gefin út. Skýrsla með svörum ungmenna frá Forvarnardegi 2024 verður aðgengileg á vef Forvarnardagsins. 2 Nemendum í þátttökuskólum (9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla) býðst að taka þátt í verðlaunaleik sem tengist verkefninu og er áherslan þar einnig að vinna með áskoranir og lausnir sem tengjast símum, skjátækjum og samfélagsmiðlum en nánari upplýsingar um leikinn eru aðgengilegar á vefsíðu Forvarnardagsins www.forvarnardagur.is. Forseti Íslands afhendir verðlaun við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu. Hér má sjá kynningu á verðlaunaleiknum á tiktok þar sem nemendur í 9. bekk í grunnskóla og á fyrsta ári framhaldsskóla eru hvattir til að taka þátt og hvattir til að fá sinn skóla til að taka þátt í verkefnum Forvarnardagsins.
Benda má á að í Lýðheilsuvísum 2025 sem kynntir voru 29. september koma fram vísar sem gefa upplýsingar um börn og ungmenni á grunn- og framhaldsskólaaldri. Þessir vísar eru m.a.: snjalltæki fyrir svefn, samvera með foreldrum, traustur aðili í framhaldsskóla, öryggi heima hjá sér og í nærumhverfi, einelti, æfir íþróttir, hreyfing samkvæmt ráðleggingum, orkudrykkjaneysla framhaldsskólanema, ölvun unglinga, notkun nikótínpúða hjá framhaldsskólanemum.
Hér má sjá lýðheilsuvísa eftir heilbrigðisumdæmum og í stærri sveitarfélögum.
Einnig má skoða ýmsa vísa í mælaborði lýðheilsu.