Syndum Sett í Ásvallalaug
04.11.2025Syndum, landsátak í sundi var sett með formlegum hætti í Ásvallalaug mánudaginn 3. nóvember. Þetta er í fimmta sinn sem Syndum – landsátak í sundi er sett. Markmiðið með Syndum er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi og nota meðal annars sund til þess. Þeir metrar sem landsmenn synda, á meðan á átakinu stendur, safnast saman og á forsíðu www.syndum.is verður hægt að sjá hversu marga hringi landsmenn hafa synt í kringum Ísland.
Ávörp við setninguna fluttu Willum Þór Þórsson, forseti ÍSÍ, Björn Sigurðsson, formaður Sundsambands Íslands og Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Það voru svo 25 sundiðkendur á aldrinum 8-13 ára hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar sem syntu átakið formlega af stað.
Fleiri myndir frá setningunni má sjá hér
ÍSÍ vill hvetja sem flesta að nýta allar þær frábæru laugar út um allt land til hreyfingar og heilsueflingar! Skráning í Syndum hér
UM VERKEFNIÐ
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. - 30. nóvember 2025. Syndum er heilsu- og hvatningarátak sem höfðar til allra landsmanna. Markmiðið með Syndum er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi og nota meðal annars sund til þess. Í átakinu taka landsmenn sig saman og synda hringi í kringum Ísland en í fyrra náðist að leggja að baki 32.171 km sem er nærri 24 hringi í kringum Ísland.
Syndum er verkefni undir Íþróttaviku Evrópu og er styrkt af Evrópuráðinu (European Commission).
.jpg)



