Úttekt á Ferðasjóði íþróttafélaga
08.12.2025
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur unnið úttekt á Ferðasjóði íþróttafélaga. Úttektin var unnin út frá gögnum úr umsóknarkerfi sjóðsins, og byggir á gögnum áranna 2018 - 2024. Á því tímabili voru 16.125 umsóknir sem uppfylltu úthlutunarreglur sjóðsins og úttektin byggir á.
Helstu niðurstöður úttektarinnar sýna að á tímabilinu hafa framlög til Ferðasjóðs íþróttafélaga ekki haldið í við aukinn ferðakostnað. Skráður ferðakostnaður hefur aukist úr 473 m.kr. í 695 m.kr. á tímabilinu sem er rétt um 47% aukning. Greiðslur úr Ferðasjóði íþróttafélaga hafa á sama tímabili dregist saman úr 127 m.kr. 2018 í 124 m.kr. árið 2024. Endurgreiðsluhlutfallið hefur því minnkað á tímabilinu, fór það úr 27% af skráðum ferðakostnaði árið 2018 í 18% árið 2024.
Niðurstöður sýna einnig að úthlutanir Ferðasjóðs endurspegla vel hlutverk sjóðsins og ekki er óeðlileg skekkja varðandi undirþætti s.s. landshluta, afreksstig, kyn eða hvaða íþrótt um ræðir.
Ferðasjóði íþróttafélaga var komið á með þingsályktunartillögu nr. 789. á 132 löggjafarþingi. Styrkir hafa verið veittir frá árinu 2007 til íþrótta- og ungmennafélaga í landinu vegna keppnisferða innanlands. ÍSÍ annast alfarið umsýslu sjóðsins, þ.e. auglýsir eftir umsóknum, fer yfir umsóknir og úthlutar árlegu fjárframlagi sjóðsins til umsækjenda, skv. umsóknum þar að lútandi.
Öll íþrótta- og ungmennafélög innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) hafa rétt til að sækja um styrk í sjóðinn, fyrir alla aldurshópa í viðurkenndum íþróttagreinum innan ÍSÍ á skilgreind styrkhæf mót. Styrkir reiknast út frá fjölda keppenda og vegalengd ferðar auk þess sem notast er við upphæðarstuðul og landsbyggðarstuðul.
Upplýsingar um Ferðasjóð íþróttafélaga.