„Þessi vottun er mikill leiðarvísir“
07.01.2026
Íþróttafélagið Þór fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarélag ÍSÍ fyrir aðalstjórn og sex deildir á verðlaunahátíð félagsins sem ber nafnið „Við áramót" og var haldin þriðjudaginn 6. janúar síðastliðinn.
Deildirnar sem hlutu viðurkenningu eru handknattleiksdeild, hnefaleikadeild, knattspyrnudeild, körfuknattleiksdeild, píludeild og taekwondodeild. Það var Heimir Örn Árnason úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sem afhenti fulltrúum félagsins viðurkenningarnar.
Á myndinni frá vinstri eru: Heimir Örn Árnason, Marta María Kristjánsdóttir frá hnefaleikadeild, Linda Guðmundsdóttir íþróttafulltrúi Þórs fyrir hönd aðalstjórnar, Páll Pálsson frá handknattleiksdeild, John Júlíus Cariglia frá knattspyrnudeild, Guðjón Andri Gylfason frá körfuknattleiksdeild, Davíð Örn Oddsson frá Píludeild, Ásgeir Þór Ásgeirsson frá taekwondodeild og Viðar Sigurjónsson sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ.
„Í rekstrarsamningi Íþróttafélagsins Þórs og Akureyrarbæjar er það skilyrði að félagið uppfylli kröfur um að vera Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé atriði sem fleiri sveitarfélög ættu að hafa inni í samningum við íþróttafélög. Það myndi þrýsta fleiri íþróttafélögum í að fara í þá vinnu að gerast Fyrirmyndarfélög og í þeirri vinnu lærir þú mjög mikið um starfið og hvað við þurfum og viljum uppfylla í okkar starfi. Það er mjög gleðilegt fyrir íþróttafélagið Þór að fá þessa viðurkenningu og erum við þakklát fyrir hana“, sagði Reimar Helgason framkvæmdastjóri Þórs af þessu tilefni.