Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

„Íþróttir eiga að vera fyrir börn, en ekki öfugt“

22.01.2026

 

Ráðstefnan „Minna eða meira afreks?“ fór fram í Háskólanum í Reykjavík í gær í tengslum við Reykjavíkurleik­ana RIG, sem standa nú yfir í borginni. Að ráðstefnunni stóðu Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Háskólinn í Reykjavík. Hafrún Kristjánsdóttir og Hjördís Guðmundsdóttir stýrðu ráðstefnunni.

Vegna mikillar þátttöku og jákvæðra viðbragða við umræðuefninu á síðasta ári var þemað tekið upp að nýju, með sérstakri áherslu á hvernig íþróttastarf barna og ungmenna getur verið heilbrigt, uppbyggilegt og í takt við þarfir samtímans.

Á ráðstefnunni komu fram Mark O’Sullivan, dósent við Norwegian School of Sport Sciences, Siubhéan Crowne, doktorsnemi og rannsakandi í íþróttasálfræði, dr. Martin Camiré, prófessor við School of Human Kinetics við University of Ottawa, og Peter O’Donoghue, prófessor við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík. Í lok dags fór fram pallborðsumræða þar sem rætt var um málefnið út frá íslenskum veruleika.

Lagt áherslu á þarfir barna

Í erindum fyrirlesaranna kom skýrt fram að íþróttastarf barna eigi ávallt að mótast af þörfum þeirra sjálfra. Mark O’Sullivan orðaði það skýrt: „Íþróttir eiga að vera fyrir börn, en ekki öfugt.“ Bent var á að leikgleði, fjölbreytni og jöfn tækifæri séu grunnstoðir heilbrigðs íþróttastarfs. Rannsóknir sýni að of mikil pressa, snemmtæk sérhæfing og stíf æfingaplön geti dregið úr gleði, minnkað þátttöku og aukið líkur á brottfalli. Þá var fjallað um að aukin markaðsvæðing íþrótta geti skapað væntingar og kröfur sem samræmast illa aldri og daglegum aðstæðum barna.

Úrræði tengd afreksstarfi íþrótta þurfa að byggja á jafnvægi

Rætt var um hvernig úrræði tengd afreksstarfi íþrótta geta stutt börn og ungmenni án þess að ýta þeim of snemma út í sérhæfingu eða búa til kröfur sem ganga gegn langtímahagsmunum þeirra. Áhersla var lögð á jafnvægi, sveigjanleika og virðingu fyrir eðlilegu þroskaferli barna í allri uppbyggingu þjálfunar.

Líflegar umræður í pallborði

Í pallborðsumræðunum sköpuðust líflegar umræður um stöðu mála á Íslandi. Þar kom fram að íþróttastarfið þurfi að taka mið af raunverulegu lífi barna og ungmenna, til dæmis með því að tryggja að þau hafi svigrúm til að samræma skóla, fjölskyldu og íþróttir. Einnig var rætt um mikilvægi sveigjanlegra úrræða innan menntakerfisins og að samvinna íþróttahreyfingar, skóla og foreldra sé lykilatriði í að skapa umhverfi sem styður þátttöku barna og styrkir þau til framtíðar.

Mynd: Jón Aðalsteinn Bergsveinsson / UMFI