1. Hvaða stefnu hefur flokkurinn varðandi íþróttamál?
Píratar hafa ekki ályktað um íþróttamál önnur en að afnema bann við keppni í hnefaleikum og bardagaíþróttum með öryggi í iðkun greinarinnar að leiðarljósi. Píratar vilja fjölbreytt og litríkt samfélag og teljum við að heilsa og velferð samfélagsins sé okkar stærsta hagsmunamál, þar með sagt styðjum við íþróttaiðkun heilshugar.
2. Er flokkurinn reiðubúinn til að styðja og/eða standa að auknum fjárveitingum til íþróttastarfsins i landinu?
Píratar hafa ekki ályktað um málið en við viljum auka vægi þeirra sem að starfinu koma í ákvarðanatöku, t.d. varðandi fyrirkomulag, fjárveitingar og fjármál. Píratar hafa ályktað um breytingar á menntakerfi þar sem lögð er meiri áhersla á aukið vægi verk- og listgreina, þ.e.a.s. að menntakerfið sé miðað út frá getu hvers og eins. Þar er einnig átt við íþróttaiðkun sé það hin sterka hlið nemandans.
3. Með hvaða hætti vill flokkurinn stuðla að því að öll börn og ungmenni hafi jöfn tækifæri til að taka þátt í íþróttastarfi?
Til dæmis með þeim breytingum á menntakerfinu sem Píratar hafa ályktað um. Þar er gert ráð fyrir því að nemendum sé gefinn tími til þess að leggja stund á áhugamál og mismunandi efnahagur nemenda má ekki vera hindrun. Tómstundaiðkun er hugsuð út frá velferðarsjónarmiði innan starfsins.
4. Með hvaða hætti vill flokkurinn efla umhverfi afreksíþrótta, s.s. gagnvart lýðréttindum afreksíþróttfólks og starfsemi sérsambanda ÍSÍ og ÍSÍ?
Um þetta hefur ekki verið ályktað. Píratar vilja gefa kjósendum tækifæri til þess að taka meiri þátt í stefnumótun samfélagins. Beint þátttökulýðræði er besta leiðin til þess að koma hugmyndum og stefnumálum á framfæri.
5. Með hvaða hætti hyggst flokkurinn framfylgja íþróttastefnu ríkisins sem sett var fram árið 2011 og ber yfirskriftina, „Stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytisins í íþróttamálum“?
Eins og áður kom fram höfum við nú þegar stigið okkar fyrsta skref í stefnumótun menntamála. Ein stærsta hindrun íþróttaiðkunar er fyrirkomulag innan menntakerfisins sem okkur þykir ekki vera nægilega fjölbreytt og gæti virkað hamlandi á suma nemendur. Píratar telja að notendastýrð hönnun sé besta leiðin til þess að ná þeim markmiðum sem stefnumótun í íþróttamálum setur sér.
6. Mun þinn flokkur standa vörð um Íslenska getspá sem burðarás í fjármögnun íþróttahreyfingarinnar og Öryrkjabandalags Íslands?
Píratar styðja atvinnu- og fjáröflunarfrelsi eins lengi og það brýtur ekki í bága við núgildandi landslög. Svarið er þess vegna já.